Skoðun

Um mikilvægi nýrrar þjóðarsáttar á vinnumarkaði

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson og Stefán Ólafsson skrifa:

Framundan eru erfiðir og jafnframt mjög mikilvægir kjarasamningar. Það er ekki auðvelt að gera kjarasamninga eftir jafn víðtækt efnahagshrun eins og hér varð. Um 20.000 starfsígildi hafa tapast og um 88% þeirra sem hafa misst vinnuna eru karlar á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 24-55 ára. Í september sl. voru 11.500 án atvinnu. Atvinnuþátttaka hefur farið úr 80% í 75% og vinnutími hefur minnkað að meðaltali um 2 klst. á viku. Kaupmáttur hefur rýrnað mjög mikið og skuldastaða heimilanna hefur versnað til mikilla muna. Framundan er niðurskurður hjá hinu opinbera. Við þessar erfiðu aðstæður þurfa aðilar vinnumarkaðarins að gera nýja kjarasamninga.

Við Íslendingar höfum jákvæða reynslu af gerð þjóðarsáttarsamninganna 1986 og 1990. Fyrir þann tíma voru kjarasamningar gerðir til skamms tíma og verkföll voru tíð. Með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og ríkis­valdsins tókst að brjóta verðbólguna á bak aftur og tryggja stöðugleika og bæta kaupmátt. Með þjóðarsáttarsamningunum hófst nýtt skeið í samskiptum milli aðila vinnumarkaðarins sem byggðist á trausti og gagnkvæmum skilningi á kröfum hvors annars. Aðilar sammæltust um að tryggja sameiginlega hagsmuni launþega, atvinnu­rekenda og þjóðar­búsins. Þróunin á síðustu árum fyrir hrun fór illa afvega og því er nú mikilvægt að leggja grunn að nýrri þjóðar­sátt.

Í kjölfarið á þjóðarsáttinni voru kjarasamningar gerðir til lengri tíma en áður þekktist, eða allt upp í fjögur ár. Þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í skugga óðaverðbólgu og gífurlega hárra vaxta. Á árunum 1976-1985 voru gerðir sjö kjarasamningar og meðalgildistími þeirra var 13,4 mánuðir, en á árunum 2000-2006 voru gerðir þrír kjarasamningar sem giltu að jafnaði í 45,9 mánuði. Meðalfjöldi vinnustöðvunardaga landverkafólks á árunum 1970-1989 voru 50.332 en árin 1990-2009 var meðaltalið 2.244. Frá árinu 1977-2009 töpuðust 2.284.638 dagar vegna verkfalla á íslenskum vinnumarkaði, þar af töpuðust 932.102 eða 40,8% vegna verkfalla opinberra starfsmanna. Árin 1977, 1984, 1989, 1992, 1995, 2000, 2004 og 2008 er meirihluti tapaðra vinnudaga vegna verkfalla hjá opinberum starfsmönnum. Samkvæmt þessu skýrir rúmlega fimmtungur af vinnuaflinu tæplega 41% verkfalla á þessum tíma. Um 622.979 vinnudagar töpuðust vegna landverkafólks, eða 27,3%, og 729.557 dagar vegna fiskimanna og farmanna, eða 31,9%. Það er því afar mikil­vægt að öll samtök launafólks komi með fullgilda aðild að nýrri þjóðarsátt.

Í september 1986 varð til samkomulag á samningafundi aðila vinnumarkaðarins þess efnis að koma á fót sérstakri efnahagsnefnd. Í nefndinni áttu sæti sérfræðingar og samningamenn sem áttu að meta efnahagslegar forsendur komandi kjarasamninga, með því að huga að gengis­málum, vaxtastigi, sköttum, verðlagsþróun og kaupmætti. Kjarasamningurinn sem gerður var í kjölfarið og oft hefur verið nefndur „þjóðarsáttarsamningurinn fyrri" byggðist á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um að taka höndum saman um að sporna gegn óðaverðbólgu og tryggja kaupmátt launþega. Hinn eiginlegi þjóðarsáttarsamningur var gerður 1. febrúar 1990 eftir mikla vinnu sérfræðinga og langar og erfiðar samningalotur. Megin samningsmarkmiðið var áfram að komast út úr vítahring verðbólgunnar, sem iðulega rýrði kaupmátt launa og hækkaði skuldir heimila. Á árunum 1980-1990 hækkuðu laun um 1.450% og kaupmáttur launa lækkaði um 14%. Á árunum 1990-2000 hækkuðu laun hins vegar um 67% en kaup­máttur launa hækkaði um 27%.

Samningsmarkmið þjóðarsáttarsamninganna var að koma böndum á verðbólguna, semja um sérstakar launahækkanir til hinna lægst launuðu, tryggja kaupmáttaraukningu og almennan stöðugleika í efnahagslífi landsins.





Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Í þeirri kjarasamningalotu sem er framundan mun ríkis­valdið gegna lykilhlutverki við gerð nýrra kjarasamninga, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Móta þarf skýra atvinnustefnu. Allir aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. ríkisvaldið, almenni vinnumarkaðurinn og opinberi vinnumarkaðurinn, þurfa að koma sameiginlega að gerð nýrrar þjóðarsáttar og geta þessir aðilar horft til fyrri reynslu við gerð þjóðarsáttar­samninganna 1986 og 1990. Gagnlegt væri að fá til dæmis Ásmund Stefánsson eða Þröst Ólafsson, sem báðir hafa verðmæta reynslu af fyrri þjóðarsáttar­samningum, til að fara fyrir sérfræðinganefnd sem skipuð væri fjórum öðrum, einum fulltrúa ríkis- og sveitarfélaga, einum fulltrúa vinnuveitenda á almennum vinnumarkaði, einum fulltrúa launþega á almennum vinnumarkaði og einum fulltrúa launþega á opinberum vinnumarkaði. Samningsmarkmið þessa hóps yrði að skapa stöðugleika sem hjálpar til við að reisa efnahagslífið úr öskustónni. Önnur samningsmarkmið yrðu að gera kjarasamning til þriggja ára, halda verðbólgunni í skefjum, tryggja hóflega kauphækkun, auka kaupmátt, bæta kjör hinna lægst launuðu sérstaklega og síðast en ekki síst minnka atvinnuleysi.

Markmið slíkrar nýrrar þjóðarsáttar væru að mörgu leyti þau sömu og fyrir 20 árum. Reynslan hefur sýnt okkur að kjarasamningar sem gerðir eru til skamms tíma og byggja á háum prósentuhækkunum eru ekki vænlegir til árangurs. Reynslan sýnir líka að kjarasamningar sem byggjast á víðtæku samráði allra aðila leggja grunn að almennri hagsæld launþega.




Skoðun

Sjá meira


×