Erlent

Minnast fórnarlambanna - Lík forsetans flutt til Póllands

Fjölmargir söfnuðust saman fyrir utan forsetahöllina í Varsjá til að votta Lech Kaczynski forseta landsins virðingu sína ásamt þeim 96 sem fórust í flugslysinu. Mynd/AP
Fjölmargir söfnuðust saman fyrir utan forsetahöllina í Varsjá til að votta Lech Kaczynski forseta landsins virðingu sína ásamt þeim 96 sem fórust í flugslysinu. Mynd/AP
Pólverjar minntust forseta síns og þeirra tuga manna sem fórust með honum í flugslysinu í Rússlandi í gær, með tveggja mínútna þögn í morgun. Kennsl hafa verið borin á lík forsetans sem líklega verður flutt til Póllands í dag.

Þúsundir landsmanna stóðu kyrr á götum úti til að votta Lech Kaczynski forseta landsins virðingu sína ásamt þeim 96 sem fórust í flugslysinu sem varð nærri Smolensk í vesturhluta Rússlands í gær. Fjölmargir söfnuðust einnig saman fyrir utan forsetahöllina í Varsjá. Þá hafa þúsundir Pólverja tekið þátt í kyrrðarstundum sem haldnar hafa verið í kirkjum landsins til að minnast forsetans.

Vladímir Pútín, forsætisráðherra Rússlands, hefur lýst því yfir að hann muni persónulega fylgjast með rannsókn á flugslysinu. Flest bendir til að mistök flugmanna hafi orsakað slysið.

Jaroslaw Kaczynsky, tvíburabróðir forsetans, kom að slysstaðnum í gær en fréttir herma að hann sé eyðilagður maður vegna slyssins. Þeir bræður stofnuðu saman stjórnmálaflokkinn Lög og réttur eftir fall Sovétríkjanna og er hinn eftirlifandi bróðir formaður flokksins. Forsetinn hugðist bjóða sig fram að nýju til embættis forseta Póllands þegar kjörtímabili hans hefði lokið á þessu ári. Boðað verður til forsetakosninga í landinu innan tveggja mánaða samkvæmt stjórnarskrá landsins, en hún kveður á um að forseti þingsins í landinu fari með völd forseta þangað til.

Lík þeirra sem létust í flugslysinu voru flutt til Moskvu höfuðborgar Rússlands seint í gær þar sem kennsl verða borin á þau. Lík forsetans hefur fundist og þegar verið borin kennsl á hann. Líkið verður væntanlega flutt til Póllands síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×