Skoðun

Gott að vera öryrki

Bergvin Oddsson skrifar

Á Íslandi eru um 14.000 einstaklingar sem þiggja örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég er einn af þeim, sökum blindu minnar er ég 75% öryrki. Ástæða þess að ég skrifa þessa grein er sú að það er að mínu mati miklu hagstæðara að þiggja örorkulífeyri, með þeim hlunnindum sem því fylgja, en að vera úti á vinnumarkaðnum. Fyrst langar mig að nefna að ekkert tillit er tekið til einstaklingsins þegar örorkumat er metið.

Allir sem eru blindir, heyrnarlausir, lamaðir, geðsjúkir eða eru með nægilega mikla þroskaskerðingu fá nákvæmlega sömu greiðslurnar frá Tryggingastofnun burtséð frá aldri, fjölda barna, hvort viðkomandi búi einn og hvort viðkomandi hafi einhverja atvinnu.

Gagnvart minni fötlun er eitt að vera blindur og annað að vera mjög blindur. Tveir blindir einstaklingar hafa mjög mismunandi starfsorku, starfskunnáttu og eru með mismunandi menntun. Það er óréttlátt að sömu tveir einstaklingarnir með sömu fötlunina fái sömu greiðsluna óháð getu og reynslu. En af hverju skyldu öryrkjar hafa það svona gott, þegar litið er til venjulega launþegans í frystihúsinu, á leikskólanum og við búðar­kassann? Kemur í ljós að öryrkinn hefur hærri tekjur og að auki mun fleiri hlunnindi sem aðrir launþegar fá ekki.

Öryrkinn fær 28.000 kr. í heimilisuppbót ef hann býr einn. Hann fær rúmlega 18.000 kr. í barnalífeyri með hverju barni. Öryrkinn getur fengið á bilinu 300 til 1.200 þúsund krónur í bílastyrk. Sá hinn sami fær 100.000 þúsund kr. í frítekjumark ef hann er á almennum atvinnumarkaði. Ég er ekki hættur að telja upp hlunnindi öryrkja, því þeir greiða minna fyrir heilbrigðisþjónustuna og fá alltaf frítt í strætó og í sund.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að öryrkjar þurfa ekki að greiða meðlagsgreiðslur því Tryggingastofnun greiðir meðlagsgreiðslur handa fyrrverandi barnsmóður eða föður öryrkjans. Að auki greiða öryrkjar innan við 1.000 kr. í bifreiðagjöld. Með þessum skrifum er ég alls ekki að segja að öryrkjar lifi kóngalífi, heldur er ég að endurspegla raunveruleikann, þegar laun og kjör öryrkja annars vegar eru skoðuð og svo laun og hlunnindi almenna launþegans hins vegar. Það sést hér að nú þarf að lyfta grettistaki í launakjörum láglaunafólksins og ekki síst millitekjufólksins. Ég skora á alla sem koma að samningagerð launþeganna að hækka umtalsvert laun lágtekjufólksins og þeirra sem hafa laun undir 300.000 kr.






Skoðun

Sjá meira


×