Lífið

Fimmfaldur Arnar á Airwaves

Það verður nóg að gera hjá Arnari Þór á Airwaves-hátíðinni. Hann spilar með fimm hljómsveitum á stuttum tíma. fréttablaðið/valli
Það verður nóg að gera hjá Arnari Þór á Airwaves-hátíðinni. Hann spilar með fimm hljómsveitum á stuttum tíma. fréttablaðið/valli
Arnar Þór Gíslason spilar með fimm hljómsveitum á Iceland Airwavs-hátíðinni, þar á meðal rokkurunum í Ham í fyrsta sinn. „Þetta er stórkostleg upplifun að spila með þessum herramönnum,“ segir Arnar Þór.

Hann mun lemja húðirnar í fjarveru nafna síns Arnars Geirs Ómarssonar, sem er með gigt og þarf því að hafa hægt um sig. Arnar Geir ætlar að einbeita sér að spilamennsku með Apparat á hátíðinni en sú sveit er töluvert rólegri en Ham. „Þetta er svo hátt hjá strákunum og það verður að lemja svo fast að gigtin fer alveg með hann, þannig að ég létti undir með honum,“ segir Arnar Þór og er hvergi banginn við verkefnið. „Ég ætla að gera mitt allra besta.“ Hann hefur verið aðdáandi Ham lengi og því er ákveðinn draumur að rætast hjá honum. „Þetta er geðveikt band.“

Fjöldi annarra verkefna eru fram undan hjá Arnari á Airwaves því á undan Ham-tónleikunum spilar hann með Ensími og þar áður með tengdaföður sínum Rúnari Þórissyni. „Þetta verður magnað kvöld. Það verður nóg að gera.“ Ofan á þessi gigg bætast tónleikar með eiginkonu hans Láru Rúnarsdóttur og Mugison. Arnar er einnig meðlimur Dr. Spock en sú sveit verður reyndar ekki með á Airwaves í ár. „Ég hef alltaf spilað með slatta af hljómsveitum á Airwaves. Þetta hefur oft staðið tæpt og ég hef oft þurft að hlaupa á milli staða en það er bara gaman að því.“ - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.