Innlent

Ísland dróst inn í stríðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Allt að 50 þúsund hermenn voru hérna á landi þegar best lét.
Allt að 50 þúsund hermenn voru hérna á landi þegar best lét.
„Það var hugmyndin að byrja niðri við höfnina þar sem Bretarnir stigu á land snemma morguns. Svo ætlum við að fara á þá staði sem þeir töldu hernaðarlega mikilvæga á fyrstu klukkutímum hernámsins, lögreglustöðina og Pósthúsið gamla og Landsímahúsið við Austurvöll. Koma svo við hjá stjórnarráðinu og tala um hvernig þeir höndluðu þetta stjórnmálalega. Af því að þetta var náttúrulega innrás - hernám. Þó þetta hafi verið vinsamleg innrás," segir Guðbrandur Benediktsson sagnfræðingur.

Minjasafn Reykjavíkur stendur fyrir göngu um miðbæ Reykjavíkur á morgun í tilefni af því að í ár eru 70 ár liðin frá hernámi Breta á Íslandi. Guðbrandur Benediktsson, sagnfræðingur á safninu, mun leiða göngu um slóðir breskra hernámsmanna, sem stigu á land í Reykjavík fyrir 70 árum. Fjallað verður um sögu hernámsins og atburði sem áttu sér stað í Reykjavík á fyrstu vikum þess.

Guðbrandur segir furðulítið vera gert úr hernáminu miðað við hvað þetta hafi verið stór viðburður. „Hér hafði verið kreppa og frekar staðnað samfélag. Síðan þegar þeir koma, fyrst Bretarnir 10. maí, að þá koma þeir með alls kyns tæki. Menn fóru svo að vinna fyrir herinn, í svokallaðri Bretavinnu og kynntust svo mörgu nýju. Það urðu breytingar á neyslu og menningu og fleira og fleira," segir Guðbrandur. Guðbrandur segir að með þessum atburði hafi Ísland dregist inn í stríðið og komist nær Evrópu. Árið 1940 hafi Íslendingar verið rétt um 120 þúsund en þegar mest var hafi verið um 50 þúsund hermenn á Íslandi. Þeir hafi því næstum verið helmingur allra karlmanna þegar þeir voru hér flestir.

Lagt verður af stað í göngutúrinn frá Grófarhúsi klukkan átta annað kvöld. Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×