Skoðun

Aðför að hjúkrun og öryggi sjúklinga

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar

Heilbrigðisráðherra er um þessar mundir að kynna breytingar á hagræðingaráformum í heilbrigðisþjónustu. Þær tillögur sem nú eru kynntar eru sagðar lagðar fram með hliðsjón af þeim athugasemdum sem stjórnendur, sveitastjórnir og hagsmunasamtök gerðu við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011. Látið er að því liggja að verið sé að milda hagræðingarkröfurnar og draga úr þeirri miklu skerðingu á þjónustu sem fjárlagafrumvarpið bar með sér. En er það svo?

Í frumvarpi til fjárlaga voru greiðslur fyrir hvert sjúkrarými víðast færðar niður úr 64.000- króna á sólarhring í tæp 39.000. Í hinum breyttu tillögum er aldeilis bætt um betur. Nú er lagt til að greiðsla fyrir hvert almennt sjúkrarými verði kr. 23.621 á sólarhring og er þeirri greiðslu ætlað að standa undir umönnunar- og hjúkrunarþætti á sjúkrasviðunum.

Enn er því þrengt að. Þessi greiðsla miðast við meðal daggjald fyrir hjúkrunarrými að viðbættu 15% álagi. Auk þessa bætist við óskilgreint álag vegna smæðar eininga og fjölda útstöðva. Öllum sem þekkja til reksturs sjúkrahúsa má vera ljóst að þessar greiðslur eru allt of lágar.

Forstöðumenn hjúkrunarheimila hafa misserum saman talið daggjöld fyrir hjúkrunarrými allt of lág. Þó íbúar hjúkrunarheimila þurfi nú mun sérhæfðari og meiri hjúkrun en var fyrir nokkrum árum er ljóst að þeir sem nýta sjúkrarými heilbrigðisstofnana þurfa almennt enn meiri og sérhæfðari hjúkrunarþjónustu en veitt er á hjúkrunarheimilum.

Afleiðingar þessarar skerðingar, ef af verður, verða alvarlegar. Faglærðum starfsmönnum verður fækkað til að lækka launakostnað, gæði þjónustunnar minnka, öryggi sjúklinga verður ógnað og kostnaður eykst þegar til lengri tíma og á heildina er litið. Fylgikvillum meðferða mun fjölga og legutími mun lengjast. Fjöldi erlendra rannsókna virtra fræðimanna hafa sýnt að beint samband er á milli samsetningar þess mannafla sem veitir heilbrigðisþjónustu og þess hvernig sjúklingum reiðir af.

Auk þeirra alvarlegu og neikvæðu áhrifa sem tillaga þessi mun hafa á gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, nái hún fram að ganga, mun hún hafa veruleg áhrif á möguleika fagmenntaðs fólks til búsetu á landsbyggðinni.






Skoðun

Sjá meira


×