Lífið

Innblásin af málsháttum

Eitt verka Sari. „Enginn skyldi hafa tvær tungur í einu höfði“.
Eitt verka Sari. „Enginn skyldi hafa tvær tungur í einu höfði“.

Opnuð hefur verið sýning á verkum Sari Maarit Cedergren í Artóteki, sem er á fyrstu hæð Borgarbókasafns Reykjavíkur, Tryggvagötu 15. Sari er fædd í Finnlandi og ólst upp í Stokkhólmi í Svíþjóð. Árið 1986 flutti hún til Íslands og hefur búið hér síðan.

Á sýningunni eru nokkur verk unnin í gifs innblásin af íslenskum málsháttum og er Sari þar að skírskota til sjónrænnar birtingar orða. Á sýningunni er einnig stuttmynd sem sýnir hvernig hún notar eigin líkama við gerð verkanna. Íslenskt veður hefur verið Sari innblástur undanfarin ár. Slydda, él, mugga og súld eru allt nöfn á verkum hennar auk margra annarra sem hvert fyrir sig túlka ákveðin veðrabrigði. Sari var skálavörður í Emstrum í tvö sumur og varð sú reynsla henni að yrkisefni í sýningarnar Hviða 2007 og Umhleypingar 2006.

„Ég fór að velta fyrir mér íslenskum málsháttum, sem hafa mikla skírskotun í félagslegt og pólitískt ástand í dag,“ segir Sari. „Ég læt rýmið og staðinn móta sýninguna að nokkru leyti. Ég skoðaði hlutverk staðarins sem menningarstofnunar, staðar þar sem fólk hittist, skoðar bækur og listaverk og á ýmis samskipti. Með allt það í huga ásamt íslensku málsháttunum skapaði ég verkin á sýningunni og myndaði þannig brú á milli áhorfandans og verkanna.“ Sýningin stendur út janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.