Lífið

Heimsækja 206 lönd í einum rykk - Ísland númer 93

Tinni Sveinsson skrifar
Antonio, Kelly og Tony lentu á besta tíma á Íslandi, á kosninga- og Eurovision-deginum.
Antonio, Kelly og Tony lentu á besta tíma á Íslandi, á kosninga- og Eurovision-deginum.
Þau Antonio Santiago frá Mexíkó, Kelly Ferris frá Belgíu og Tony Martin frá Bandaríkjunum byrjuðu í brjáluðu, eins árs ferðalagi um áramót. Þau komu hingað á föstudag en stoppuðu stutt og flugu aftur af stað í gær. Ísland var 93 landið af 206 sem þau ætla að heimsækja á einu ári.

Tríóið var valið í kosningu á netinu til að heimsækja þau lönd sem selja kók og kallast þau hamingjusendiherrar Coca-cola fyrirtækisins. Verkefnið sem þeim ber að sinna er að kynnast heimamönnum á hverjum stað og reyna að komast að því hvað gerir þá hamingjusama. Við Íslendingar vorum nokkuð heppnir að þau skyldu lenda hérna einmitt á laugardaginn þegar kosið var um allt land og Eurovision-veislur skipulagðar í öðru hverju húsi um kvöldið. Það er hætt við því að fólk hafi verið í mjög góðu skapi og það verði skráð í skýrslur hópsins.

Heimi stóð til boða að fara í 206 landa ferðalagið en hafnaði boðinu. Hann hannar í staðinn kók í gleri sem fer á safn í Bandaríkjunum.
Leikmyndahönnuðurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Heimir Sverrisson var á meðal þeirra sem kom til greina að færi í þennan leiðangur um gervallan heiminn. Heimir er sjónvarpsáhorfendum að góðu kunnur eftir að hann birtist á Skjá einum í heimildarmynd um ferð hans með syni sínum um Kína. Heimi bauðst að taka þátt í leiðangrinum á vegum Coca-cola en afþakkaði þar sem að hann treysti sér ekki til að skuldbinda sig til ferðalaga í heilt ár og skilja allt eftir hér heima á Íslandi.

Heimir fær þó að aðeins að koma nálægt verkefninu því að hann hefur umsjón með íslenskri hönnun á lítilli kók í gleri (ásamt Sruli Recht) sem Íslendingar láta í skiptum fyrir grænlenska útfærslu flöskurnar í eins konar listrænu boðhlaupi hópsins með þessa frægu flösku. Flöskurnar með útfærslu listamanna frá öllum löndum heims verða svo til sýnis í safni Coca-Cola í Atlanta í Bandaríkjunum.

Ferðalagið reynir væntanlega mikið á. Áður en lagt var af stað fengu þau góðan undirbúning í því hvernig eigi að halda líkamlegri og andlegri heilsu á ferðalaginu. Þau fengu líka stutta kynningu á því hvernig eigi að pakka hratt niður og fengu að smakka alls kyns framandi mat frá öllum heimshornum. Þeim var einnig kennt að segja „what makes you happy" á fjölda tungumála svo að þau geti spurt fólk víða um heim. Þau hófu ferðalagið í Madrid á Spáni 1. janúar síðastliðinn og enda í Atlanta í Bandaríkjunum 31.desember. Niðurstöðurnar birta þau svo í bloggfærslum og á samfélagsmiðlum eins og Twitter, bloggi og Facebook.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.