Innlent

Hertar aðgerðir gegn svartamarkaðsbraski

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Uppbygging rjúpnastofnsins gengur vel.
Uppbygging rjúpnastofnsins gengur vel.
Boðaðar hafa verið hertar aðgerðir gegn svartamarkaðsbraski með rjúpur, segir Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands. Verulega hefur dregið úr rjúpnaveiði á undanförnum árum enda þykir stofninn vera allt of lítill. Það breytir því ekki að margir sem hafa vanist því að borða rjúpnakjöt á jólunum eru enn sólgnir í slíkan mat. Þetta skapar forsendur fyrir svörtum markaði.

Sigmar segir vissulega að það sé til staðar svartur markaður með rjúpur. „Það er einhver en það hefur frekar dregið úr því í gegnum árin, enda er komið mikið úrval af matvælum," segir Sigmar í samtali við Vísi. Hann bendir á að veiðimenn séu í mörgum fjölskyldum og borið hafi á svartamarkaðsbraski í fyrra. Sigmar segir að það sé erfitt að eiga við svartamarkaðsbraskið þegar verið sé að selja fugla innan fjölskyldunnar. „En þegar að menn eru að selja þetta opið, þá er það lögbrot samkvæmt núgildandi reglugerð," segir Sigmar. Hann segist telja að eftirlit yfirvalda með þessu hafi verið slælegt hingað til.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tilkynnti þá ákvörðun í gær að fyrirkomulag rjúpnaveiða í haust verði óbreytt frá fyrra ári. Sigmar segir að þetta þýði að um 75 þúsund fuglar verði veiddir en stofninn telur um 850 þúsund fugla. Sigmar segist vera gríðarlega sáttur við þessa ákvörðun. Hann segir að uppbygging rjúpnastofnsins undanfarin ár hafi gengið vel. Veiðar hafi verið takmarkaðar verulega. Á hinn bóginn séu fleiri þættir sem hafi áhrif á stærð rjúpnastofnsins. Til að mynda veðurfar og fjölgun rándýra.

Sigmar segir að áhuginn á rjúpnaveiðum sé að aukast. Það sé meðal annars vegna þess að menn hafi meiri tíma fyrir veiðarnar nú þegar minni atvinna sé í boði. Hann segir skotveiði ekki vera svo kostnaðarsama. „Það er náttúrlega ekkert ódýrt að byrja, en vopn og klæði og annað slíkt er náttúrlega eitthvað sem að endist afar vel," segir Sigmar. Meðalveiðimaður verji um það bil 160 þúsund krónum á ári í þessa tómstund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×