Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík hittust í gær og komu sér saman um röð leynifunda, sem auglýstir verða sérstaklega. Þar verði málefni væntanlegs meirihluta rædd, en lítið sem ekkert hefur verið tæpt á þeim.
„Við settum upp stundaskrá, enda eru margir málaflokkar sem þarf að fara yfir," segir Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar. Hann segir verða fundað næstu daga um málefni og er bjartsýnn á viðræðurnar.
Óttarr Ólafur Proppé segir fulltrúa flokkanna hafa náð að hittast í gær og búa til ramma utan um áframhaldandi viðræður. Reyna átti að setja saman stundaskrá yfir leynifundi í gær. Hann segir stefnt að því að hefja viðræður um málefni í dag. Menn hafi þó rekið sig á að hlutirnir gangi hægar fyrir sig en ætlað var. „Það er að hluta til vegna þess að við komum ný inn í vinnuna, en síðan hefur gengið illa að fá frið til að vinna."
Efstu menn á listum munu standa að viðræðunum. Þá er fyrirhugað að opna fyrir athugasemdir almennings á sérstakri heimasíðu skuggaborgarstjórnar.
Líkur á samstjórn allra flokka í Hafnarfirði hafa snarminnkað og í gær ákváðu Samfylkingin og Vinstri græn að hittast til málefnaviðræðna. Þær hefjast í dag. Viðræðurnar eru á frumstigi og allt á huldu varðandi áherslur, hvað þá um embætti.
Bæði Lúðvík Geirsson, núverandi bæjarstjóri, og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti Vinstri grænna, hafa gefið því undir fótinn að þau verði bæjarstjórar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur hvorugur flokkurinn þó sett fram kröfu þar um.
Í Kópavogi ganga viðræður milli Samfylkingar, Vinstri grænna, Næstbesta flokksins og Lista Kópavogsbúa vel og er jafnvel búist við því að tilkynnt verði um nýjan meirihluta á morgun. Fulltrúar flokkanna hittust klukkan 17 í gær og stefndu á langan fund.
„Við höldum okkur við tímaáætlunina og stefnum að því að ljúka viðræðum á miðvikudag," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar.
kolbeinn@frettabladid.is
Viðræður hefjast í dag um áherslurnar
