Innlent

Einn íslenskur fangi fluttur inn fyrir hvern sem fer utan

Refsingar fimm litháískra mansalsmanna, sem Hæstiréttur dæmdi nýverið í fjögurra og fimm ára fangelsi, falla innan þess ramma að beiðni verði send héðan um að þeir afpláni í heimalandinu.
Refsingar fimm litháískra mansalsmanna, sem Hæstiréttur dæmdi nýverið í fjögurra og fimm ára fangelsi, falla innan þess ramma að beiðni verði send héðan um að þeir afpláni í heimalandinu.
Sex erlendir fangar hafa á undanförnum tveimur árum verið fluttir úr fangelsum hér til heimalanda sinna, Litháens og Hollands, til að ljúka afplánun þar. Á sama tíma hafa jafnmargir íslenskir brotamenn, sem setið hafa í fangelsum erlendis, verið fluttir hingað til lands til að ljúka afplánun sinni hér.

Þá er í vinnslu mál varðandi brottflutning hollensks brotamanns héðan til heimalandsins.

„Málsmeðferðartíminn í þeim ríkjum sem við höfum beðið um að taka við eigin borgurum er yfirleitt mjög langur," segir Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu. „Frá því að við sendum til tiltekins ríkis beiðni þess efnis að það taki við eigin ríkisborgara, sem hefur verið dæmdur hér og sé hann fús til fararinnar, þá fer málið í ferli sem getur hæglega tekið sex mánuði í fyrstu atrennu. Sé dæmi tekið um mann sem hefur setið í allt að hálft ár í gæsluvarðhaldi, síðan verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og losnar á reynslulausn sex mánuðum eftir uppkvaðningu dómsins, eru allar líkur á að við séum ekki búin að fá svar frá ríkinu þegar hann er kominn út. Niðurstaðan er sú að það er varla raunhæft að hefja brottflutningarferli fyrir styttri dóma en þá sem kveða á um þriggja til fjögurra ára fangelsisvist. Það eru ekkert óskaplega margir útlendingar sem eru að fá svo þunga dóma."

Haukur segir að þessi langa málsmeðferð sé þó ekki algild. Til að mynda hafi litháísk yfirvöld brugðist mjög vel við í málum af þessu tagi en dómsmálaráðherrar Íslands og Litháens hafi gert með sér samkomulag um hraða málsmeðferð. Þá séu önnur aðildarríki Evrópuráðssamningsins þar sem þurfi að dæma upp dómana sem menn hafa hlotið hér á landi. Það sé ekki til þess fallið að flýta fyrir málshraðanum.

„Svo eru flest þessara ríkja með alltof mikið af föngum fyrir og líta þess vegna varla á það sem forgangsmál í sinni stjórnsýslu að flytja menn frá útlöndum vegna brota sem þeir hafa framið erlendis."

Við þetta bætist svo að vilji erlendu brotamennirnir ekki fara héðan, sem flestir vilja ekki, verði ferlið enn lengra því þá þurfi að byrja á að brottvísa þeim með löglegum hætti. Hins vegar vilji nær allir íslensku brotamennirnir koma heim og afplána hér. Reynsla undanfarinna ára sýni að flutningar fanga til heimalandsins geti ekki leyst nema sáralítið brot af vanda í fangelsismálum hér á landi.

jss@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Burðardýr eiturlyfja héldu sig fá milljónir

Par á þrítugsaldri gerði ráð fyrir að fá þrjár til fjórar milljónir fyrir að smygla tæpum 1,8 kílóum af kókaíni í þremur ferðatöskum hingað til lands.

Seldu fíkniefni fyrir milljónir

Tveir af mönnunum fimm sem ákærðir eru fyrir stórfellt fíkniefnasmygl frá Alicante á Spáni í mars og apríl eru einnig ákærðir að hafa staðið að sölu fíkniefna um nokkurt skeið fram í apríl síðastliðinn. Orri Freyr Gíslason er




Fleiri fréttir

Sjá meira


×