Enski boltinn

Dirk Kuyt: Manchester City getur ekki keypt sögu Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Kuyt hefur skorað 9 mörk í 25 deildarleikjum með Liverpool í vetur.
Dirk Kuyt hefur skorað 9 mörk í 25 deildarleikjum með Liverpool í vetur. Mynd/AFP
Dirk Kuyt og félagar í Liverpool vita að þeir mega ekki tapa á móti Manchester City í dag í einum af úrslitaleikjunum um fjórða sæti í ensku úrvalsdeildinni og þar sem síðasta sætið inn í Meistaradeildina á næsta tímabili.

„Þetta er mjög stór leikur, ef við vinnum þá erum við í góðum málum en ef við töpum þá erum við komnir í vandræði," sagði Dirk Kuyt við Telegraph.

Leikur Manchester City og Liverpool hefst klukkan 15.00 á City of Manchester Stadium.

„Við hefðum viljað vera í betri stöðu en við erum í dag en það eina sem við getum gert er að reyna að vinna þennan leik og tryggja okkur sæti meðal fjögurra efstu. Við höfum getuna til þess," sagði Dirk Kuyt.

Kuyt segir að saga Liverpool sé meira virði en að eyða stórum upphæðum í leikmenn og það er þessi saga sem hjálpar félaginu að halda sér í fremstu röð.

„Saga Liverpool er miklu miklu stærri og glæsilegri en hjá félögum eins og Manchester City og Chelsea. Manchester City getur ekki keypt sögu Liverpool," segir Kuyt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×