Enski boltinn

Leikir í enska boltanum í dag: Baráttan um 4. sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City liðið er mjög sterkt á heimavelli sínum.
Manchester City liðið er mjög sterkt á heimavelli sínum. Mynd/AFP
Liðin sem berjast um fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta verða í aðalhlutverki í leikjum deildarinnar í dag en þá fara alls fram sex leikir. Stórleikurinn er á milli Manchester City og Liverpool, liðanna í 4. og 5. sæti deildarinnar en Tottenham Hotspur og Aston Villa eru bæði skammt undan og spila líka í dag.

Blackburn-Bolton (Klukkan 12.00)

Bolton hefur ekki náð að skora í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og það á sinn þátt í því að liðið situr í fallsæti. Grétar Rafn Steinsson og félagar hafa líka aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum. Blackburn er um miðja deild eftir þrjá sigra í síðustu sex deildarleikjum sínum en liðið vann 2-0 sigur í fyrri leik liðanna. Bolton hefur unnið einu sinni í síðustu fjórum heimsóknum sínum á Ewood Park.

Aston Villa-Burnley (Klukkan 14.00)

Aston Villa hefur enn ekki tapað á árinu en fjórir af fimm deildarleikjum liðsins hafi endað með jafntefli. Liðið er í 7.sæti en þó aðeins þremur stigum á eftir Manchester City sem er í hinu eftirsótta 4. sæti. Emile Heskey tryggði Aston Villa 1-1 jafntefli í fyrri leiknum með marki aðeins fjórum mínútum fyrir leikslok. Burnley hefur aðeins fengið eitt stig úr 13 leikjum á útivelli á tímabilinu og situr sem stendur í fallsæti. Liðið hefur þó ekki tapað í síðustu þremur heimsóknum sínum á Villa Park.

Fulham-Birmingham (Klukkan 15.00)

Fulham hefur aðeins fengið á sig átta mörk á heimavelli í deildinni og hefur ennfremur ekki fengið á sig mark í síðustu þremur deildarleikjum. Birmingham vann fyrri leikinn 1-0 á St Andrew's á sigurmarki Lee Bowyer. Birmingham hefur tapað tveimur síðustu tveimur útileikjum sínum og hefur ekki náð að skora í 3 af síðustu 5 heimsóknum sínum á Craven Cottage.

Manchester City-Liverpool (Klukkan 15.00)

Manchester City hefur unnið 18 af síðustu 22 heimaleikjum sínum í ensku deildinni og aðeins tapað einum leik. City getur unnið sinn sjöunda heimaleik í röð í dag en liðið hefur ekki tapað stigi á heimavelli undir stjórn Roberto Mancini. Liverpool tapaði síðasta útileik á móti Arsenal en það var eina tap liðsins í átta útileikjum. Liverpool hefur þó aðeins unnið tvo af síðustu tíu deildarleikjum sínum utan Anfield. Liðin gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum þar sem Yossi Benayoun tryggði Liverpool stig.

Wigan-Tottenham (Klukkan 16.15)

Wigan hefur gert jafntefli í þremur síðustu deildarleikjum sínum og er nú aðeins tveimur stigum frá fallsæti. Tottenham hefur ekki unnið í síðustu þremur heimsóknum sínum til Wigan en Spurs vann þar síðast í nóvember 2005. Tottenham hefur aðeins náð í tvö stig út úr síðustu þremur leikjum sínum og hefur bara unnið einn af síðustu sex. Tottenham hefur heldur ekki enn náð að skora mark síðan að Eiður Smári Guðjohnsen kom til liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×