Skoðun

Meðferðarheimili og löggjöfin

Vegna þess sem komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið um að eftirspurn eftir plássum á meðferðarheimilum væri minni en framboð og MST-meðferðarkerfið talið vera m.a. skýring á því, er nauðsynlegt að opna aðeins inn á þá umræðu hér. Til að byrja með er vert að benda á það að það eru engan veginn öll börn eða unglingar sem geta nýtt sér MST og MST leysir ekki af hólmi nauðsyn þess að góð meðferðarheimili séu til staðar. Samkvæmt rannsóknum í Noregi á MST kom fram að þrátt fyrir jákvæð áhrif MST hefur stofnunum/meðferðarheimilum ekki fækkað hjá þeim.

Einnig eru þessar upplýsingar fjölmiðla áhugaverðar í ljósi þess að undirrituð hefur vitneskju um unglinga sem eiga sér engan samastað vegna flókins samspils erfiðleika sem hrjá þá og engin viðunandi meðferðarúrræði virðast vera í boði fyrir þau eins og okkur þó ber lagaskylda til að veita þeim. Í þessu samhengi má einnig geta þess að á skömmum tíma hefur tveimur meðferðarheimilum á vegum ríkisins undir eftirliti Barnaverndarstofu verið lokað, þ.e. meðferðarheimilunum Árbót og Götusmiðjunni. Árbót var lokað meðal annars vegna þess að starfsmaður heimilisins beitti skjólstæðinga þess kynferðislegu ofbeldi. Götusmiðjunni var lokað meðal annars vegna óviðeigandi hegðunar forstöðumanns heimilisins. Í ljósi þessara atburða vakna margar spurningar: Hvers konar meðferðarheimili erum við að reka? Hvaða kröfur gerum við til starfsfólks meðferðarheimilanna? Er eftirliti með heimilunum ef til vill ábótavant?

Rétt er að huga að þeim skyldum sem við höfum til að reka meðferðarheimili. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 79. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er það félagsmálaráðuneytið sem ber ábyrgð á því að heimili og stofnanir séu tiltæk þegar á þarf að halda. Í því felst m.a. að veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota. Síðan er það Barnaverndarstofa í umboði félagsmálaráðuneytis sem annast uppbyggingu og rekstur heimila og stofnana.

Barnaverndarstofa er sú stofnun sem skal hafa faglegt og fjárhagslegt eftirlit með starfsemi heimila og stofnana og getur einnig mælt fyrir um tiltekna sérhæfingu þeirra og veitt þeim faglegan stuðning. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum lögfest hér á landi kemur fram í 2. mgr. 3.gr. sáttmálans að aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón. Það má velta fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að löggjafinn geri strangari kröfur til bæði eftirlits og faglegrar ráðninga starfsmanna á þau meðferðarheimili sem ríkið rekur?

Er til dæmis eðlilegt að forstöðumaður meðferðarheimilis eins og í tilviki Götusmiðjunnar sé ófaglærður? Einnig má spyrja sig í Árbótarmálinu af hverju stúlkan sem lét í fyrra skiptið vita af kynferðisafbroti starfsmannsins fengi ekki að njóta vafans og gerður starfslokasamningur við starfsmanninn. Það er skylda ríkisvaldsins samkvæmt barnaverndarlögum gagnvart þeim börnum sem þurfa að vistast á vegum þess njóti í það allra minnsta verndar. Í þessu tilviki var ekki svo og er það algerlega óásættanlegt. Þessi umræða er ekki ný af nálinni en óhjákvæmilega kemur hún aftur upp í hugann þegar Götusmiðjumálið kom til. Það sem er mikilvægast núna er að læra af því sem á undan er gengið og vanda til verka. Það þarf að endurskoða reglur og löggjöf sem um meðferðarheimili gilda. Lögin þurfa að gera strangari kröfur um fagþekkingu innan meðferðarheimila og hafa skilvirkt og þéttara eftirlit með heimilunum. Það getur einfaldlega skipt sköpum fyrir unglinginn að til dæmis starfsmenn séu hæfir til að geta unnið eftir þeim meðferðaráætlunum sem vinna á eftir. Einnig þarf að skoða hvort þjónustusamningar séu rétta leiðin til að reka meðferðarheimilin ef það gerir það að verkum að til dæmis Barnaverndarstofa hafi þá ekki húsbóndavald yfir starfsmönnum heimilisins.

Ég hvet almenning til að kynna sér hvaða úrræði eru raunverulega í boði ef þau skyldu verða það óheppin að til dæmis unglingurinn þeirra ætti við alvarlegan hegðunarvanda að stríða eða væri í neyslu.

Við stöndum frammi fyrir erfiðum og þungum unglingavandamálum en ef til vill færri en sem, því miður virðast ekki vera til viðunandi úrræði fyrir og nauðsynlegt er að opna umræðuna um þau og hvetja stjórnvöld til aðgerða bæði hvað varðar löggjöf, reglur, eftirlitsaðila og fjármagn.




Skoðun

Sjá meira


×