Erlent

Kolaskipstjóri handtekinn í Ástralíu

Óli Tynes skrifar
Kafari kannar hafsbotninn þar sem skipið flatti út kóralrif í þriggja kílómetra langri rennu.
Kafari kannar hafsbotninn þar sem skipið flatti út kóralrif í þriggja kílómetra langri rennu. Mynd/AP

Ástralska lögreglan hefur handtekið skipstjórann og stýrimann á kínverska kolaflutningaskipinu sem strandaði á kóralrifinu mikla hinn þriðja þessa mánaðar.

Skipið skildi eftir sig þriggja kílómetra slóð eyðileggingar á rifinu sem sérfræðingar segi að taki minnst tuttugu ár að jafna sig.

Þeir segjast aldrei hafa séð jafn mikið tjón á rifinu eftir skipsstrand. Umhverfisráðherra Ástralíu varð öskureiður yfir þessu óhappi.

Hann sagði að skipið hefði verið svo langt af leið að það lýsti hreinlega ótrúlegum slóðaskap.

Skipstjórinn og stýrimaðurinn eiga yfir höfði sér bæði fangelsisdóma og háar sektir.

Björgunarsveitum tókst að ná skipinu af strandstað á mánudaginn eftir að öllu eldsneyti hafði verið dælt úr því til að létta það.

Kóralrifið mikla er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×