Skoðun

Óraunhæf óskhyggja

Seint í fyrra var nokkuð fjallað um hugmyndina um norrænt varnarsamstarf. Að mínu mati hefur það aldrei verið raunhæf hugmynd og allra síst á vorum tímum. Svokölluð loftrýmisgæsla er einskis virði fyrir varnir Íslands og hefur þann eina tilgang að veita samstarfsþjóðum í NATO skilyrði til æfinga flugherja sinna. Ógn af hálfu Rússa er ekki lengur fyrir hendi og fylgst er með öllum æfingum flugherja Rússa á norðurslóðum frá Noregi og Bretlandi. Það er hins vegar nauðsynlegt vegna flugöryggis að Íslendingar hafi vitneskju um æfingaflug Rússa í nágrenni Íslands vegna alþjóðlegrar ábyrgðar okkar á öryggi flugs á þessum slóðum.

Eins og ég hef áður bent á í greinum mínum um þessi mál er því nauðsynlegt að komast að samkomulagi við Rússa um samstarf við íslensku flugumferðarþjónustuna um þetta flug þeirra umhverfis Ísland. Ég hef enga vitneskju um það hvort þess hafi verið farið á leit við Rússa en hvet íslensk stjórnvöld til þess að reyna að ná samkomulagi við þá um þessi mál með tilliti til almenns flugöryggis á íslenska flugumferðarstjórnar svæðinu. Þessi mál vekja ennfremur upp þá spurningu hvort Ísland hafi í reynd nokkurn hag af því að vera áfram aðili að NATO. Það er einkum sú fyrirlitlega atlaga Breta að Íslandi með því að beita Ísland hryðjuverkalögum og framkoma NATO-þjóða í garð Íslendinga vegna Icesave-deilunnar sem styður þessar skoðanir mínar á samstarfi við NATO-þjóðirnar í dag.

Ég á þó ekki von á því að núverandi utanríkisráðherra Íslands geri mikið í þessum málum í dag þótt hann hefði verið til í það fyrir einhverjum áratugum síðan. En það er líka spurning um hvort einhver önnur stjórnvöld hefðu gert það frekar. En er ekki kominn tími til þess að endurskoða afstöðu Íslands til NATO og ESB-þjóðanna sem eru einnig flestar meðlimir í þessum fyrrum varnarsamtökum gegn kommúnismanum?

Höfundur er fyrrverandi flugumferðarstjóri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×