Lífið

Ver sig gegn fljúgandi tónlistarnemum

Saga verður með uppistand á Prikinu í kvöld klukkan 21.30 ásamt Uglu Egilsdóttur og Halldóri Halldórssyni. Þar mun hún halda uppi gleðinni með því að segja ýkjusögur. Fréttablaðið/GVA
Saga verður með uppistand á Prikinu í kvöld klukkan 21.30 ásamt Uglu Egilsdóttur og Halldóri Halldórssyni. Þar mun hún halda uppi gleðinni með því að segja ýkjusögur. Fréttablaðið/GVA

Saga Garðarsdóttir leiklistarnemi hefur sinn sérstaka stíl. Henni þykir gaman að vera búningaleg og þverröndótt þykir henni fallegt.

„Svo klæðist ég öllu því sem vinkonur mínar prjóna á mig eða gefa mér," segir hún en tískuverslanir forðast hún út af verðlaginu. Heldur kýs hún Tiger og Rúmfatalagerinn.

Uppáhaldsflíkin um þessar mundir er til dæmis bleikur hjólahjálmur sem elskulegur kærasti Sögu gaf henni á dögunum. „Hann veitir mér öryggistilfinningu því án hans er ég stöðugt hrædd um að reka mig upp undir eitthvað eða fá hamar í hausinn. Ég læri líka í svo óöruggu vinnuumhverfi af því leiklistarskólinn er að hruni kominn og hjálmur í raun bara hluti af grunnöryggisbúnaði nemenda.

Þannig verjum við leiklistarnemarnir okkur gegn tónlistarnemum sem stundum falla bjargarlausir ofan af annarri hæðinni," segir Saga glettin og bætir við: „Svo hefur Hjálmar rektor líka lýst því yfir að þeir nemendur sem haldi nafni hans á lofti með því að ganga með hjálm dags daglega fái meira konfekt á útskrift en aðrir. Þetta fyrirkomulag hentar mér ágætlega því ég tek allri gagnrýni betur með hjálm því hann er nokkurs konar brynja sálarlífs míns," segir hún og hlær.

Reyndar er Saga að grínast og gengur ekki með hjálminn dags daglega þótt hún noti hann mikið við hjólreiðar. Henni þykir enda gaman að segja ýkjusögur líkt og hún mun gera í kvöld klukkan 21.30 á Prikinu. Þar verður hún með gamansamt uppistand ásamt vinkonu sinni Uglu Egilsdóttur og Halldóri Halldórssyni.

solveig@frettabladid.is

Nánar um uppistandið á Prikinu hér á Facebook.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.