Erlent

Gæti spillt fjölbreyttu lífríki

Net sjómanna sem gera út á Mexíkóflóa eru lituð af olíu.Fréttablaðið/AP
Net sjómanna sem gera út á Mexíkóflóa eru lituð af olíu.Fréttablaðið/AP

-AP- Stál og steinsteypuhvelfingu var sökkt í Mexíkóflóa í gær þar sem olíuborpallur á vegum breska olíufélagsins BP sökk fyrir hálfum mánuði. Hvelfingin vegur hundrað tonn og stefnt er að því að olían verði sogin upp úr henni og um borð í tankskip. Vonir eru bundnar við að hægt verði að ná upp 85 prósentum af þeirri olíu sem lekið hefur úr honum. Þetta er nýjung í hreinsunarstarfi en fjölmargar aðrar tilraunir til að hreinsa svæðið hafa mistekist.

Talið er að tæplega 760 þúsund lítrar af olíu komi upp úr tveimur borholum á botni Mexíkóflóa. Olía kom áður úr þremur holum en einni var lokað á miðvikudag.

Talsvert magn af olíu hefur borist á land og hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að vernda viðkvæmt votlendi við New Harbor-eyju úti fyrir ströndum Louisiana-ríkis.

Ekki er talið að fuglalíf hafi orðið fyrir verulegum skakkaföllum af völdum olíulekans en svæðið er heimkynni máva og pelikana og er lífríki eyjunnar fjölbreytt.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×