Innlent

Fréttir vikunnar: Innrás á heimili og eldsvoði í Alcoa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Töluverður eldur kom upp í álverinu á Reyðarfirði. Mynd/ Gunnar B. Ólafsson.
Töluverður eldur kom upp í álverinu á Reyðarfirði. Mynd/ Gunnar B. Ólafsson.
Vikan byrjaði á því að greint var frá því að þrír menn á milli tvítugs og þrítugs réðust inn í heimahús á Selfossi um sex leytið á laugardagskvöldi vopnaðir hnífum. Ógnuðu þeir íbúum og gestum sem voru á heimilinu og höfðu á brott með sér tölvur og önnur verðmæti. Lögregla var kölluð til og stöðvaði bifreið mannanna í bænum skömmu síðar. Tóku mennirnir þá á rás og hlupu undan lögreglu en í kjölfarið upphófst mikil leit að ræningjunum.

Við sögðum líka frá því að einelti er meðal alvarlegustu samskiptavandamála sem upp koma á vinnustöðum og innlendar sem erlendar rannsóknir benda til þess að allt að 8 til 10% starfsmanna verði fyrir einelti í vinnu. Vinnuumhverfisnefnd hefur sett ramma um það ferli sem æskilegt er að ofbeldismál gegn færu í.

Á mánudaginn sögðum við frá því að 29 ára gömul kona var dæmd í 2ja ára fangelsi fyrir að draga sér fé frá íslenska sendiráðinu í Vínarborg. 22 mánuðir dómsins eru skilorðsbundnir. Konan starfaði sem bókari hjá sendiráðinu og játaði að hafa dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu 335 þúsund evrur, eða um 51 milljón íslenskra króna.

Á mánudag sögðum við líka frá „raunveruleikaþáttastjörnunum" Sony, Panasonic og systkinum þeirra. Þau eru reyndar öll hvolpar, en eigandi þeirra, Haraldur Ási Lárusson, starfsmaður kvikmyndagerðarfyrirtækisins Kukl, heldur úti netútsendingu allan sólarhringinn þar sem sést hvað þau aðhafast.

Á þriðjudag sögðum við frá þingsályktunartillögu fjórtán þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi sem gerir ráð fyrir að klukkunni verði seinkað um klukkutíma. Gert er ráð fyrir að fundin verði hentug tímasetning til þess að ráðast í aðgerðina innan árs frá samþykkt þingsályktunartillögunnar. Ómar Ragnarsson tók ekkert sérstaklega vel í tillöguna. Hann vill ekkert hringl með klukkuna.

Fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar
var á dagskrá á borgarstjórnarfundi á þriðjudag samhliða síðari umræðu um fjárhagsáætlun. Fjárfestingaráætlunin sem gerir ráð fyrir að 6,5 milljörðum króna verði varið til fjárfestinga.

Við sögðum svo frá því að stjórnendur Sólheima í Grímsnesi gera ráð fyrir að starfseminni þar verði lokað. Styr hefur staðið milli rekstraraðila Sólheima og ríkisstjórnarinnar um málefni Sólheima og sér ekki fyrir endann á því.

Á miðvikudag sögðum við líka frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum og tollgæslan, rannsaka nú innflutning á 500 skömmtum af LSD sem voru haldlagðir af tollvörðum í síðustu viku. Í tilkynningu frá lögreglu sagði að nokkrar skýrslutökur hafi farið fram í þágu rannsóknarinnar.

Á fimmtudag sögðum við frá því að þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs myndu ekki styðja fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár. Atkvæðagreiðsla um frumvarpið fór fram þennan daginn. Þingmennirnir sem studdu ekki frumvarpið eru Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason.

Á föstudag sögðum við frá því að Strætó myndi hækka fargjöld í fyrsta sinn frá því í janúar 2007. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé gert til þess að mæta rýnandi fargjaldatekjum. Þær hafa dregist saman um helming að raunvirði frá stofnun Strætó bs. árið 2001þar sem fargjöld hafa ekki haldið í við almenna verðlagsþróun frá þeim tíma. Hækkunin tekur gildi um áramót og eftir hana mun stakt fargjald kosta 350 krónur og stök barnafargjöld verða afnumin.

Í gær sögðum við frá miklum bruna eftir að sprenging varð í spennustöð álversins á Reyðarfirði. Slökkvilið Fjarðabyggðar tókst að ráða niðurlögum eldsins eftir að hann hafði logað í rúma fjóra tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Alcoa er ekki vitað hvað olli sprengingunni en málið er í rannsókn. Ekki er heldur vitað hve mikið tjón varð vegna eldsins, né hvaða áhrif hann muni hafa á framleiðslu álversins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×