Lífið

Breyttu heimilinu í gistihús til að eiga fyrir afborgunum

Hjónin Berglind Björk Halldórsdóttir og Hannes Þór Baldursson breyttu heimili sínu í gistiheimili til að geta staðið undir afborgunum.Fréttablaðið/Anton
Hjónin Berglind Björk Halldórsdóttir og Hannes Þór Baldursson breyttu heimili sínu í gistiheimili til að geta staðið undir afborgunum.Fréttablaðið/Anton

Færst hefur í aukana að fólk breyti heimilum sínum í gistheimili til að afla auka tekna eða til þess eins að geta staðið undir afborgunum.

„Lánið var búið að hækka svo mikið og maður var orðinn þreyttur á því að púla og púla til að láta enda ná saman þannig að við ákváðum að flytja út og breyta heimilinu í gistiheimili," segir Hannes Þór Baldursson sem rekur gistiheimilið Our House ásamt eiginkonu sinni Berglindi Björk Halldórsdóttur.

„Við höfðum ekki efni á að búa í húsinu lengur þannig við ákváðum að fara þessa leið í stað þess að reyna að selja það. Við fjölskyldan fluttum því út og búum nú hérna við hliðin á," segir Hannes Þór, en hjónin eiga saman þrjú börn og er hið yngsta aðeins þriggja mánaða gamalt.

Gistiheimilið opnar í næstu viku og verður svefnpláss fyrir allt að sextán manns. „Við erum bara nýbyrjuð og enn að ganga frá öllum leyfum en við erum byrjuð að fá nokkrar bókanir þannig við erum bjartsýn á sumarið og vonum bara að þetta standi undir sér," segir Hannes.

Hannes og Berglind eiga saman þrjú börn og er hið yngsta aðeins þriggja mánaða gamalt.

Gistiheimilið LonnyPlanet við Skipholt er rekið af Jóni Árna Árnasyni sem einnig breytti íbúð sinni í gistheimili.

„Hann ákvað að breyta íbúðinni í gistiheimili til að reyna að skapa sér auka tekjur. Þetta er þó allt á byrjunarreit og enn er verið að huga að markaðssetningu og öðru slíku. Þetta á allt eftir að fara betur af stað," segir Hallgrímur Atlason, stjúpfaðir Jóns Árna, sem staddur var úti á landi við vinnu þegar blaðamaður Fréttablaðsins hringdi.

Þegar Hallgrímur en spurður út í hið skemmtilega nafn gistiheimilisins segir hann það einskonar orðaleik sem vísar í heiti ferðahandbókarinnar Lonely Planet. „Nafnið þótti honum skemmtilegt því hann er oftast kallaður Lonny af vinum og vandamönnum."

sara@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.