Erlent

Mesta ógnin að hryðjuverkasamtök eignist kjarnorkuvopn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Barack Obama segir það mjög hættulegt ef hryðjuverkasamtök eignist kjarnorkuvopn. Mynd/ AFP.
Barack Obama segir það mjög hættulegt ef hryðjuverkasamtök eignist kjarnorkuvopn. Mynd/ AFP.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir að mesta ógn við öryggi Bandaríkjanna sé möguleikinn á því að einhver hryðjuverkasamtök fái kjarnorkuvopn í sínar hendur.

Þetta sagði Obama í tilefni af því að í dag hefst sérstök varnamálaráðstefna í Washington sem leiðtogar 40 ríkja sækja. Obama sagði að samtök eins og al-Qaeda myndu ekki hugsa sig tvisvar um áður en þau beittu kjarnorkuvopnum. Þessi staðreynd ætti eftir að hafa áhrif á varnarmál á komandi árum.

Hvorki Norður Kóreu né Íran, þeim tveimur ríkjum sem hafa neitað að taka þátt í fækkun kjarnavopna var boðið á ráðstefnuna. Sýrland fékk heldur ekki boð á ráðstefnuna vegna þess að Bandaríkjamenn telja að stjórnvöld þar í landi séu með sérstakar kjarnorkuáætlanir.

Hins vegar er búist við því að leiðtogar ríkja á borð við Indland, Kína og Pakistan séu á meðal þeirra sem mæti til Washington á stærstu ráðstefnu sem haldin hefur verið í Washington í áratugi, segir fréttaritari bresku BBC stöðvarinnar í Washington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×