Lífið

Starfaði fyrir hirðljósmyndara dönsku konungsfjölskyldunnar

Ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir opnar sýningu á kaffihúsinu Skrúðgarðurinn í dag. Til sýnis verður stórt myndverk sem hún gerði sérstaklega fyrir sýninguna. Mynd/Aldís Pálsdóttir
Ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir opnar sýningu á kaffihúsinu Skrúðgarðurinn í dag. Til sýnis verður stórt myndverk sem hún gerði sérstaklega fyrir sýninguna. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir opnar sýninguna Suðurgata 27 á kaffihúsinu Skrúðgarðinum á Akranesi í dag, en hún starfaði meðal annars fyrir danska tískuljósmyndarann Steen Evald, sem er jafnframt hirðljósmyndari dönsku konungsfjölskyldunnar.

„Það er eitt verk sem ég gerði sérstaklega fyrir þessa sýningu sem samanstendur af mörgum litlum myndum sem ég tók á Akranesi. Ég mun einnig sýna nokkrar ævintýratískuljósmyndir sem mér þykir mjög vænt um og einnig verður á staðnum barnahorn sem ég fyllti af ýmsum skemmtilegum myndum," útskýrir Aldís.

Aldís lærði ljósmyndun í Danmörku og eftir útskrift var hún ráðin til starfa til hins virta ljósmyndara Steen Evald.

„Ég var aðallega að taka tískuljósmyndir á meðan ég starfaði á stofunni en samhliða því var ég að vinna í eigin verkefnum. Við fjölskyldan ákváðum að flytja heim síðasta sumar og síðan þá hef ég alfarið verið að vinna sjálfstætt. Það gengur ágætlega, ég hef nóg af verkefnum, sama þó ég setji mér þau sjálf eða sé að vinna fyrir aðra. Þannig að það er nóg í pípunum," segir Aldís og hlær.

Aðspurð segist hún hafa gaman af því að taka ljósmyndir af fólki og skipti þá engu hvort ljósmyndirnar séu tískutengdar eður ei. „Mér finnst bara gaman að taka myndir og þá sérstaklega af fólki, sama hvort þær séu tískutengdar eða ekki. En ætli ævintýramyndir heilli mig ekki mest og lýsi mér best sem listamanni," segir Aldís að lokum. Sýning hennar opnar klukkan 16 í dag. - sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.