Erlent

Handteknir fyrir að skipuleggja hryðjuverk

Najibullah Zazi
Najibullah Zazi

Þrír menn hafa verið handteknir í Bandaríkjunum, grunaðir um að skipuleggja hryðjuverk samkvæmt fréttavef BBC. Mennirnir eru hinn 24 ára gamli Najibullah Zazi, faðir hans og svo þriðji maðurinn sem er búsettur í New York. Zazi og faðir hans búa báðir í Denver í Colarodo.

Mennirnir eru allir fæddir í Afganistan en hafa verið búsettir í Bandaríkjunum undanfarin ár. Zazi er rútubílstjóri en hann keyrir flugvélaskutlur til og frá flugvellinum í Denver.

Í bandarískum og breskum fjölmiðlum í gær var talið að mennirnir hafi ætlað að fremja hryðjuverk í neðanjarðarlestarkerfi New York borgar. Þó er haft eftir fulltrúa alríkislögreglunnar að þeir viti ekki hvar eða hvenær hryðjuverkin hafi átt að eiga sér stað.

Bandaríska alríkislögreglan hefur fylgst með ferðum Zazi í ár en þeir telja að hann hafi hlotið þjálfun í Al-kaída búðum í Pakistan á síðasta ári. Þessu neitar Zazi og heldur því fram að hann hafi verið í heimsókn hjá konu sinni þar í landi.

Samkvæmt yfirlýsingu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu þá eru mennirnir sakaðir um falskar yfirlýsingar varðandi hryðjuverk. Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að alríkislögreglan hafi verið að rannsaka nokkra einstaklinga sem gætu tengst áætlun hryðjuverkamanna að sprengja sprengju á amerískri grundu.

Feðgarnir munu mæta fyrir rétt í Colarodo á mánudaginn næsta. Það mun þriðji maðurinn, hinn 37 ára gamli Ahmad Wais Afzali, einnig gera, þó fyrir dómstólum í New York.

Samkvæmt BBC þá neitar Zazi algjörlega ásökunum um að tengjast Al-Kaída.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×