Innlent

Stórhætta af gaskútum í húsinu sem brann

Gaskútarnir eru fjölmargir.
Gaskútarnir eru fjölmargir. MYND/Elísa á Landpóstinum.

Tugir gaskúta fundust í húsinu sem brann á Akureyri í morgun. Heimildir fréttastofu herma að húsið hafi verið afdrep fíkniefnaneytenda sem hafi stundað það að sniffa gas á kútum. Vaktstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar segir að slökkviliðsmönnum hafi stafað stórhætta af kútunum því þótt þeir hafi flestir verið tómir þá sé enn mikil sprengihætta af kútunum.

Um 25 stórir gaskútar voru í húsinu, 10 lítra kútar sem notaðir eru við gasgrill. Þá var einn enn stærri auk fjölmargra lítilla kúta, eða prímusakúta. Gríðarleg sprenging varð í húsinu og brenndist einn maður illa og var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Krafturinn í sprengingunni var slíkur að veggur og þak hússins rifnuðu frá að hluta. Svo virðist sem að einn kútur hafi sprungið en slökkviliðsmennirnir fundu restina á háalofti hússins þar sem þeim hafði greinilega verið hent eftir notkun.

Slökkvistarfi er lokið en mikill eldsmatur var í húsinu sem er gamalt timburhús.










Tengdar fréttir

Húsbruni á Akureyri - einn fluttur á slysadeild

Eldur kom upp í íbúðarhúsi við Hrafnabjörg á Akureyri á tíunda tímanum í morgun. Að sögn lögreglu stendur slökkvistarf enn yfir en um gamalt timburhús er að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×