Innlent

Á von á viðræðum eftir jól

Bæjarstjóri Garðabæjar býst við að heyra betur í Álftnesingum milli jóla og nýárs. Hann vill sjá hvernig fjárhagsvandi Álftaness verði leystur, áður en hann tekur afstöðu til sameiningarhugmynda.
fréttablaðið/
Bæjarstjóri Garðabæjar býst við að heyra betur í Álftnesingum milli jóla og nýárs. Hann vill sjá hvernig fjárhagsvandi Álftaness verði leystur, áður en hann tekur afstöðu til sameiningarhugmynda. fréttablaðið/
Formlegar viðræður milli bæjarstjórna Álftaness og Garðabæjar um sameiningu sveitarfélaganna eru ekki hafnar en bæjarstjóri Álftaness hefur þó haft samband við bæjarstjóra Garðabæjar.

„Áhugi þeirra á að hefja viðræður hefur komið fram og ég býst við að við heyrumst betur milli jóla og nýárs," segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Bæjarstjórn Álftaness nálgist málið með 90. grein sveitarstjórnarlaga í huga, en það ferli getur verið nokkuð tímafrekt að mati Gunnars.

Í greininni segir meðal annars að bæjarstjórnir skuli kjósa fólk í samstarfsnefnd, sem hafi samráð við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, og skila síðan áliti um sameiningu. Þá skal ræða málið tvívegis í báðum bæjarstjórnum og loks skulu íbúar kjósa um sameininguna, að lokinni hæfilegum kynningarfresti.

Spurður um afstöðu sína til sameiningar, segir Gunnar hana koma til með að byggjast á því hvernig verði tekið á fjárhagsvanda Álftaness og hvernig ríkisvaldið komi að þeim vanda. Þá eigi íbúarnir að eiga síðasta orðið.

Álftanes á að skila skýrslu til sveitarstjórnarráðuneytis um fjárhagslegar björgunaraðgerðir sínar og um sameininguna fyrir 20. janúar.

Ekki náðist í bæjarstjóra Álftaness. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×