Erlent

Sjóræningjar fengu þrjár milljónir dollara

Sómalskir sjóræningjar hafa í gær og í morgun skilað tveimur skipum sem þeir rændu í nóvember. Annað þeirra er sádí arabísk risaolíuskip. Fyrir það fengust þrjár milljónir bandaríkjadala í lausnargjald. Fimm sjóræningjanna drukknuðu skömmu eftir að þeir höfðu skilað skipinu.

Sómalskir sjóræningjar skiluðu í morgun írönsku flutningaskipi, The Delight, sem rænt var undan strönd Jemen í nóvember. Verið var að flytja þrjátíu og sex þúsund tonn að hveiti með skipinu frá Íran til Þýskalands þegar því var rænt. Tuttugu og fimm manna áhöfn var um borð. Allir voru ómeiddir. Ekki er vitað hvort lausnargjald var borgað fyrir skipið.

Sjórnæningjar skiluðu í gær sádí arabíska risaolíuskipinu Sirius Star sem einnig var rænt í nóvember. Þrjár milljónir bandaríkjadala voru greiddar í lausnargjald fyrir það.

Fimm sjóræningjar drukknuðu þegar bát þeira hvolfdi nærri Sirius Star en þeir höfðu þá skömmu stokkið af olíuskipinu yfir í eigin kænu. Ekki er vitað hvort þeir voru með lausnargjaldið á sér.

Í byrjun vikunnar var tyrknesku flutningaskipi, MV Yasa Neslihan, skilað eftir að eigendur höfðu greitt lausnarfé. Verið var að flytja sjötíu og sjö þúsund tonn af járngrýti með skipinu frá Kanada til Kína þegar því var rænt í október. Tuttugu manna áhöfn var um borð.

Sjórán hafa verið tíð á helstu siglingaleiðum í Aden-flóa og á Indlandshafi síðustu misseri og hafa fjölmörg ríki sent herskip á vettvang til að stöðva þau og gæta skipa á ferð um svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×