Innlent

Alþingi samþykkti skattahækkanir í morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Alþingi samþykkti í morgun bandorm ríkisstjórnarinnar um hækkun ýmissa óbeinna skatta sem og virðisaukaskatts, sem skila á ríkissjóði um 14 milljörðum í auknar tekjur á næsta ári. Gjöld á áfengi, tóbak og bensín verða hækkuð.

Gjald á áfengi og tóbak hækkar um 10% á næsta ári og á að skila einum milljarði í auknum tekjum til ríkissjóðs. Þá verður bensíngjald hækkað um tvær krónur og fimmtíu aura og olíugjald um eina krónu og sextíu og fimm aura. Enn frekari hækkun verður svo á eldsneyti þegar búið verður að samþiggja frumvarp um kolefnisgjald, en það eitt á að skila ríkissjóði 900 milljónum króna. Þar með er álögum á bíleigendur ekki lokið því bifreiðagjald hækkar um 10% á næsta ári sem áætlað er að skili ríkissjóði 500 milljónum. Breytingar á virðisaukaskattskerfinu eiga að skila ríkissjóði 6 milljörðum sem er tveimur milljörðum minna en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Almenna virðisaukaskattsþrepið hækkar úr 24,5 prósentum í 25,5 prósent. Sú breyting ein og sér á að skpa tekjur upp á tvo milljarða.

Þá verða ýmis gjöld hjá hinu opinbera sem sagt er að hafi ekki hækkað í krónutölu frá árinu 2004, hækkuð um 50 prósent. Dómsmálagjöld hækka þó öllu meira, bæði til að standa undir auknum kostnaði í dómskerfinu og til að draga úr fjölda smærri mála í dómskerfinu.

Þá verður fólki heimilt að leysa út 1,5 milljónir af séreignasparnaði sínum á næsta ári. Þeir sem ekki nýttu heimild til að leysa út milljón eins og heimilt var á þessu ári, geta leyst út 2,5 milljónir. Í lögunum er gert ráð fyrir að eigendur séreignarsparnaðar muni leysa út smanlagt 20 milljarða sem skapi 5 milljarða skatttekjur fyrir ríkissjóð og 2,6 milljarða í útsvarstekur fyrir sveitarfélögin. Samtals er reiknað með að þessar breytingar skili ríkissjóði 13,9 milljörðum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×