Innlent

Grænmetisumbúðir bannaðar af neytendastofu

Íslenskt meðlæti þarf að breyta umbúðunum sínum. Mynd tengist ekki frétt beint.
Íslenskt meðlæti þarf að breyta umbúðunum sínum. Mynd tengist ekki frétt beint.

Neytendastofa hefur bannað fyrirtækinu sem rekur Íslenskt meðlæti hf að nota umbúðir sínar utan um fryst grænmeti óbreyttar. Íslenskt meðlæti selur útlenskt grænmeti með íslensku fánalitunum. Umbúðirnar eru villandi að mati Neytendastofu.

Fréttastofa hefur að undanförnu fjallað ítarlega um merkingar á matvælum eftir að Samtök iðnaðarins tóku að hvetja landsmenn til að velja íslenskt.

Lögum um merkingar á matvælum er þannig háttað að fyrirtæki gætu flutt inn tilbúnar vörur frá Kína með íslenskum miða án þess að þurfa að greina kaupandanum frá því að varan sé í raun kínversk. Þó er skýrt í lögum að merkingar mega ekki vera villandi.

Fréttastofan lagði fyrir Neytendastofu pakka af frystu grænmeti frá Íslensku meðlæti hf. Grænmetið er erlent en því er pakkað á Íslandi. Fréttastofa taldi umbúðirnar villandi þar sem fyrirtækjaheitið er áberandi og fánalitirnir íslensku sem gæti villt um fyrir neytendum.

Neytendastofa fellst á þetta og segir að útlit umbúðanna gefi ótvírætt í skyn að uppruni grænmetisins sé íslenskur. Niðurstaða Neytendastofu er skýr: Eggert Kristjánsson, sem rekur Íslenskt meðlæti, hefur með notkun þessara umbúða brotið gegn þremur greinum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Því bannar Neytendastofa fyrirtækinu að nota umbúðirnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×