Erlent

Gasflæðið komist í lag um helgina

MYND/AP

Evrópusambandið telur að hægt verði að tryggja eðlilegt gasflæði frá Rússlandi til Vestur-Evrópu um helgina. Rússar og ESB sömdu í gær um eftirlit með gasflutningum með leiðslum um Úkraínu til að tryggja að gasi væri ekki stolið.

Í síðasta mánuði skrúfuðu Rússar fyrir gas til Úkraínu vegna deilna um verð á gasi og ógreidda reikninga. Viðskiptavinir rússneskra orkufyrirtækja í öðrum Evrópuríkjum óttuðust gasskort því leiðslur þangað liggja um Úkraínu. Því var heitið að deilan myndi ekki hafa áhrif á gasflæði til annarra ríkja.

Fimbulkuldi er í Evrópu og margir uggandi. Deilan hefur harnað síðustu daga og Rússar sakað Úkraínumenn um að stela gasi af leiðslum. Ráðamenn í Kænugarði neituðu því. Skrúfað var fyrir gasflæði um þær í fyrradag og þá tók Evrópusambandið harða afstöðu í málinu enda mörg hundruð þúsund heimili án hita víða um Evrópu.

Samkomulag tókst í gær um að rússneskir eftirlitsmenn fengju að hafa eftirlit með flæði um leiðslurnar til að tryggja að ekki væri stolið af leiðslum. Ekki er þó talið að flæði um leiðslurnar verði sem fyrr í dag, en líkast til á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×