Innlent

Horfur á að húsnæðisverð lækki meira

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði samtals um 1,1 prósent í síðastliðnum júní- og júlímánuði. Fréttablaðið/Vilhelm
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði samtals um 1,1 prósent í síðastliðnum júní- og júlímánuði. Fréttablaðið/Vilhelm
Þróun í efnahagsumhverfi heimilanna bendir ekki til neins annars en að húsnæðisverð lækki á næstu mánuðum og umsvifin á íbúðamarkaðnum haldi áfram að vera lítil. Þetta segir í greiningu Morgunkorns Íslandsbanka.

Í greiningunni kemur fram að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði samtals um 1,1 prósent í síðastliðnum júní- og júlímánuði. Verðið hafði lækkað samfellt frá því í júlí í fyrra, samkvæmt verðvísitölu Fasteignaskrár Íslands. Fjöldi þinglýstra kaupsamninga með íbúðarhúsnæði á svæðinu voru 57 í síðustu viku, og er það meira en verið hefur á einni viku síðan í október í fyrra.

Samkvæmt greiningu Íslandsbanka útskýrist hækkun íbúðaverðs og fjölgun kaupsamninga þó af hefðbundinni árstíðasveiflu. Til að ráða í þróun markaðarins þurfi að skoða þróunina til lengri tíma. Þrátt fyrir talsverða lækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, eða 10,2 prósenta lækkun síðustu tólf mánuði, hafi ekki orðið algert hrun á markaðnum eins og víða erlendis. Ástæða þess sé meðal annars að leiðrétting hér hafi fremur átt sér stað í gegnum verðbólguna. Raunverð íbúðaverðs hafi lækkað um 21 prósent á síðasta ári.

Auk þess hafi lækkun verið frestað að vissu marki þar sem enn hafi vandi þeirra sem eru í neikvæðri eiginfjárstöðu ekki verið leystur til lengri tími. Sú leiðrétting muni eflaust kalla á nokkra lækkun íbúðaverðs.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×