Handbolti

Jafntefli í toppslagnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Getty Images

Kiel og Hamburg skildu jöfn, 29-29, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Kiel er því enn taplaust á toppi deildarinnar. Leikurinn fór fram í Kiel.

Kiel tókst því að halda toppsæti sínu í deildinni en liðið er með 28 stig eftir fimmtán leiki, einu stigi á undan Hamburg.

Hamburg var lengi með yfirhöndina í leiknum en staðan í hálfleik var 17-16, gestunum í vil. Kiel náði svo tveggja marka forystu um miðbik síðari hálfleiks en Hamburg komst aftur yfir þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

En Filip Jicha jafnaði metin fyrir Kiel með síðasta marki leiksins þegar um mínúta var eftir af leiknum. Þar við sat.

Aron Pálmarsson fékk ekki að spreyta sig í leiknum en Momir Ilic var markahæsti leikmaður Kiel með níu mörk. Pascal Hens skoraði sex mörk fyrir Hamburg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×