Erlent

WHO boðar til blaðamannafundar vegna flensunnar

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur boðað til blaðamannafundar klukkan fjögur í dag um útbreiðslu inflúensuveirunnar í heiminum. Fastlega er búist við að alheimsfaraldri verð lýst yfir en miklar áhyggjur eru yfir ástandinu vegna fjölda tilfella sem hafa komið upp í Ástralíu undanfarið.

Heimsfaraldur inflúensu reið síðast yfir árið 1968 og var sá faraldur einmitt kallaður Hong Kong-flensan og þá lést ein milljón manna víða um heim. Inflúensu er lýst sem heimsfaraldri þegar hún breiðist út í tveimur eða fleiri heimsálfum. Svínaflensan hefur nú fundist í 74 löndum heimsins og eru tilfellin á Íslandi orðin þrjú en í öllum tilfellum er um að ræða fólk sem nýlega var í Bandaríkjunum þar sem útbreiðsla veikinnar er einna mest. Flestir sem veikjast fá einungis venjuleg flensueinkenni en þó hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfest 141 dauðsfall af völdum veikinnar.

Yfirvöld í Þýskalandi hafa staðfest að 27 nemendur í skóla í Dusseldorf séu smitaðir af inflúensu A, eða H1N1. Tilfellin uppgötvuðust í gærkvöldi að sögn heilbrigðisyfirvalda og hefur skólanum verið lokað fram í næstu viku og börnin sett í sóttkví. Þetta er í fyrsta sinn sem svo staðbundið smit kemur upp í svo miklum mæli í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×