Enski boltinn

Mourinho veitti Neville innblástur

Nordic Photos/Getty Images

Allt ætlaði um koll að keyra á Englandi um daginn þegar Phil Neville hjá Everton var myndaður á spjalli við Jose Mourinho þjálfara Inter daginn fyrir leik Inter og Manchester United í Meistaradeildinni.

Því var haldið fram að Mourinho hefði verið að reyna að fiska eftir upplýsingum um lið Manchester United hjá Neville, sem spilaði um árabil með United áður en hann gekk í raðir Everton.

Þessi orðrómur reyndist þvættingur eins og við mátti búast, en það fór vel á með þeim Neville og Mourinho eftir því sem leikmaðurinn gaf upp í viðtali nýverið.

Þeir hittust fyrir algjöra tilviljun á hóteli og Neville notaði tækifærið og ræddi við Mourinho um þjálfun.

"Ég held ég hafi aldrei verið eins viss um neitt á ævi minni eins og það að ég vil gerast þjálfari eða knattspyrnustjóri þegar ég hætti að spila," sagði Neville.

"Ég hitti Mourinho fyrir tilviljun á hóteli og við ræddum um þjálfun og leikmenn. Eftir 90 mínútna spjall við Mourinho reyndist grunur minn réttur, það er engin töfraformúla á bak við þjálfun, heldur er það einfaldleikinn. Það var frábært að fá að tala svona mikið við Mourinho. Hann var mjög opinn með allt og ég vona að ég fái tækifæri til að ræða við fleiri stjóra á þessum nótum í framtíðinni," sagði Neville.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×