Innlent

Mikið um slys á fólki um helgina

Allnokkuð var um slys á fólki um helgina en lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust vel á annan tug tilkynninga þess efnis. Óhöppin voru af ýmsu tagi en minnst þrír beinbrotnuðu á laugardagsmorgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Þar segir að um hafi verið að ræða konu um fertugt sem datt úr stiga í Árbæ, tæplega tvítugan pilt sem ökklabrotnaði í knattspyrnuleik í Kópavogi og karl á fimmtugsaldri sem hrasaði í Háaleitishverfi.

Á laugardag brenndist sömuleiðis ung stúlka þegar yfir hana helltist heitur drykkur. Hún var flutt á slysadeild en frekari upplýsingar um líðan hennar liggja ekki fyrir. Meirihluti tilkynninganna um slys á fólki var hinsvegar tilkomin vegna skemmtanahalds í miðborginni eða heimahúsum. Ýmsir gengu fullhratt um gleðinnar dyr en áverkar hinna sömu voru í flestum tilvikum minniháttar.

33 UMFERÐARÓHÖPP Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU

Þrjátíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Nær öll óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Betur fór því en á horfðist enda lítið mál að laga beyglur og rispur hér og þar á ökutækjum. Öllu alvarlegra er með líkamstjón en til allrar hamingju hélt einhver verndarhendi yfir vegfarendum þessa helgina. Það átti t.d. við um fólkið sem var í bílnum sem valt og endaði utan vegar sunnan Hafnarfjarðar á laugardagskvöld. Þrennt var í bílnum, karl og tvær konur, og sluppu allir lítt lemstraðir frá óhappinu. Tekið skal fram að ekki leikur grunur á ölvunarakstri í því tilviki.

ÖLVUNAR- OG FÍKNIEFNAAKSTUR UM HELGINA

Fimm ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina og þrír fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Einn þessara ökumanna, karl á þrítugsaldri, lenti í umferðaróhappi í miðborginni og fór af vettvangi án þess að útkljá málið. Lögreglan náði í skottið á kauða örskömmu síðar en þá var hann sakleysið uppmálað. Af bílnum hans að dæma var hinsvegar ljóst að maðurinn hafði ekki komist klakklaust í gegnum umferðina. Allar skýringar hins ölvaða ökumanns þóttu lítt trúverðugar og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×