Lífið

Seyðfirðingar í Sony-auglýsingu

Möstur með hátölurum hafa verið reist úti um allan Seyðisfjörð, þar á meðal í hólmanum í miðju Lóninu.
Möstur með hátölurum hafa verið reist úti um allan Seyðisfjörð, þar á meðal í hólmanum í miðju Lóninu.

„Okkur hefur verið vel tekið af bæjarbúum og það eru allir hérna boðnir og búnir að gera allt fyrir okkur þótt við séum í raun að taka bæinn yfir,“ segir Hjörtur Grétarsson hjá True North um alþjóðlega Sony-auglýsingu sem fyrirtækið tekur nú upp á Seyðisfirði. Alls verða gerðar fimm auglýsingar fyrir hátalara og heyrnartól Sony sem verða sýndar úti um allan heim.

„Við byrjuðum að taka klukkan 11 í gær og verðum hérna í fjóra daga. Við höfum reist möstur með hátölurum sem eru yfir 100 talsins og fest gríðarlega stóra hátalara á ljósastaura. Í fyrrakvöld reistum við eitt mastur í hólmanum í miðju Lóninu, svo við þurfum að gæta flóðs og fjöru, en veðrið ætlar að leika við okkur í tökunum,“ útskýrir Hjörtur, en segir megnið af hátölurunum einungis vera fyrir leikmynd en ekki hljóð.

„Ástæðan fyrir því að við erum að taka þetta hér á Seyðisfirði er að auglýsingin á að gerast í afskekktum bæ þar sem allir vísindamenn Sony búa og eru að prófa alls konar heyrnartól og hátalara sem þeir framleiða. Það er í raun bara verið að búa til blæ venjulegs lítils samfélags svo þetta á að vera eins eðlilegt og heimilislegt og það getur verið. Um 130 manns koma að tökunum, en þar af eru 25 til 30 leikarar. Þeir eru nær allir héðan úr Seyðisfirði og nokkrir frá Egilsstöðum, svo þetta er allt úr héraði,“ bætir hann við. Auglýsingarnar fara í loftið í lok maí og verða sýndar út um allan heim. Sú lengsta er þrjár mínútur og verður mest spiluð á netinu svo Seyðfirðingar eru að verða heimsfrægir.“

- ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.