Innlent

Hver læknir á Landspítala kostar 1,1 milljón á mánuði

Landspítali Sjúkrahúslæknar kosta minna en sérfræðingar á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.
Landspítali Sjúkrahúslæknar kosta minna en sérfræðingar á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.

Launakostnaður ríkisins vegna hvers læknis í fullu starfi á Landspítalanum var að meðaltali rúmlega 1,1 milljón á mánuði á síðasta ári.

Kostnaður Landspítalans við hvert stöðugildi hjúkrunarfræðings var 641.000 krónur á mánuði.

Hver sjúkraliði kostar Landspítalann 500 þúsund krónur á mánuði í laun og launatengd gjöld.

Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu, sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið.

Þar er birt meðfylgjandi tafla um launakostnað vegna fjölmennustu stétta heilbrigðisstarfsfólks á Landspítala og öðrum sjúkra­húsum á svæðinu.

Launakostnaður vegna hvers læknis við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi er 1.476 þúsund krónur á mánuði. Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ var kostnaðurinn 1.678 krónur á stöðugildi, 1.161 þúsund á Akranesi en 609.000 krónur á mánuði á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Samanburður milli St. Jósefsspítala og annarra sjúkrahúsa er þó ómarktækur, segir í skýrslunni. Þar byggir meðaltalið nær eingöngu á greiðslum til unglækna. Meðaltalsgreiðslur til sérfræðilækna á St. Jósefsspítala eru hins vegar 2,2 milljónir króna á mánuði. Sérfræðingar á St. Jósefsspítala eru almennt verktakar en ekki launamenn, sem taka laun samkvæmt kjarasamningi Læknafélags Íslands, eins og aðrir sjúkrahúslæknar.

„Launakostnaður lækna á [St. Jósefsspítala] byggist því [fyrst og fremst] á dagvinnu í verktöku en launakostnaður lækna á hinum stofnununum felur því í sér vaktagreiðslur auk launatengdra gjalda,“ segir í skýrslunni.

Í þeim tölum sem raktar hafa verið hér að ofan eru innifalin launatengd gjöld. Þau eru yfirleitt um tuttugu prósent af fjárhæðinni, en geta verið nokkuð breytileg eftir því hvaða stéttarfélög eiga í hlut. Að auki bætast tvö prósent við þegar launþegi greiðir séreignarsparnað í lífeyrissjóð.

Heildarlaun meðallæknis úr hópi þeirra 485 lækna sem starfa á Landspítalanum gæti numið 862.000 krónur á mánuði, greiði hann í séreignarsparnað til lífeyrissjóðs þótt launakostnaður sjúkrahússins sé 1.106 þúsund krónur að meðaltali.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×