Erlent

Bjóða sambýliskonu Larssons fé

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kaflaskil hafa orðið í deilu fyrrverandi sambýliskonu Stieg Larssons og bróður hans og föður um arf hans. Þau hafa deilt um auð Larssons en tekjur af bókum hans og kvikmyndaréttum af þeim sem nema hundruðum milljóna íslenskra króna.

Stieg Larsson skildi ekki eftir sig erfðaskrá þegar að hann lést og þess vegna fékk Eva Gabrielsson, sambýliskona hans til 32 ára ekki neinn arf eftir hann. Faðir hans og bróðir sátu hins vegar eftir með arfinn.

Eftir því sem tekjurnar hafa streymt inn vegna verka Larssons hafa feðgarnir verið viljugri til þess að deila auðævunum og hafa nú ákveðið að bjóða Evu sem samsvarar um 240 milljónum íslenskra króna.

„Eva var hluti af daglegu lífi Stíegs. Hún á því að njóta þess," er haft eftir bróður Larssons í skandínavískum fjölmiðlum. Hann segir að deilan megi ekki halda lengur áfram eins og hún hafi gert að undanförnu.

Stieg Larsson er þekktastur fyrir bækurnar sínar þrjár, Karlar sem hata konur, Stúlkan sem lék sér með eldinn og Loftkastalinn sem var sprengdur. Bækurnar og kvikmyndir eftir tveimur fyrri bókunum hafa verið gefnar út hér á landi við miklar vinsældir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×