Erlent

Bandaríkjamenn uggandi um fjárhaginn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Snemmbúna jólaverslunin fer hægar af stað í Bandaríkjunum nú en í fyrra.
Snemmbúna jólaverslunin fer hægar af stað í Bandaríkjunum nú en í fyrra.

Rúmlega 70 prósent Bandaríkjamanna telja sig annaðhvort undir fátæktarmörkum nú þegar eða að þeir muni verða það í framtíðinni.

Þetta er niðurstaða könnunar sem fyrirtækið Zogby International framkvæmdi og Reuters-fréttastofan greinir frá. Framkvæmdastjóri könnunarfyrirtækisins, John Zogby, segir hlutfallið sláandi og að oftar en ekki hafi svör þeirra sem rætt var við verið á þá lund að þeir telji sig um það bil ein til þrenn mánaðamót frá því að teljast lifa í fátækt. Fyrirtækið tekur reyndar hvorki fram hvar það né svarendurnir telji fátæktarmörkin liggja eða hvernig þau séu skilgreind í þessari tilteknu könnun. Það breytir því þó ekki að snemmbúin eyðsla Bandaríkjamanna fyrir jólin, það sem þeir nefna early holiday sales, hefur að sögn Reuters dregist saman síðan í fyrra og Bandaríkjamenn haldi nú fastar um veskin og leiti logandi ljósi að hentugum tilboðum til að spara aurinn.

Í heildina líta svarendur könnunar Zogby International þó björtum augum til hinnar fjarlægari framtíðar en helmingurinn sagðist að öllum líkindum verða í betri málum fjárhagslega eftir fimm ár. Tæp 35 prósent sögðust hins vegar verða nákvæmlega eins stödd eftir eitt ár og þau eru nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×