Innlent

Reiknað með að búðarþjófnaðir kosti níu milljarða á árinu

Búðarþjófur við störf.
Búðarþjófur við störf. Mynd/lögreglan

Áætlað er að stolið verði fyrir um sjö milljarða króna úr verslunum á Íslandi á þessu ári og að kostnaður fyrirtækjanna vegna þessa verði um níu milljarðar króna.

Þetta kom fram á morgunverðarfrundi Samtaka verslunar og þjónustu í morgun. Talið er að stolið hafi verið úr verslunum fyrir 3 milljarða árið 2007 og svipað á síðasta ári. Samkvæmt úttekt öryggishóps á vegum Samtaka verslunar og þjónustu, þróun og fleiru er gert ráð fyrir að þjófnaður úr verslunum á þessu ári getið numið um 7,2 milljörðum króna og að við það bætist síðan tæplega tveir milljarðar í útgjöld vegna öryggis, þannig að tjón verslunarinnar á Íslandi á þessu ári vegna þjófnaða gæti numið um 9 milljörðum króna.

Reynslan fyrir bæði árin 2007 og 2008 sýnir að þjófnaður eykst verulega síðustu mánuði ársins og nemur aukiningin allt að 140% frá fyrri hluta ársins. Á morgunverðarfundinum kom einnig fram að erlend glæpagengi geri sig gildandi í auknum mæli. Sumir þessarra þjófa fari síðan úr landi áður en dómur fellur og komist þannig hjá refsingu.

Einnig kom fram að staðan í þessum efnum væri óviðunandi. Meðal annars vegna þess að tíma taki að fá lögreglu á staðinn, mál séu felld niður að lokinn rannsókn og viðkomandi sé ekki sóttur til saka þrátt fyrir að sök sé sönnuð. Þá séu viðurlög væg, jafnvel þótt sekt sé sönnuð. Úrræði sem verið sé að skoða sé beiting sekta af hálfu lögreglu og endurheimt verðmæta, en endurheimt verðmæta er úrræði sem beitt er í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×