Enski boltinn

Torres vill reyna sig á Ítalíu

AFP

Spænski framherjinn Fernando Torres hjá Liverpool segist vilja reyna fyrir sér í ítölsku A-deildinni einn daginn. Kappinn hefur þegar leikið í efstu deild á Spáni og Englandi virðist staðráðinn í að ná þrennunni í bestu knattspyrnudeildum heims.

"Ég er þegar búinn að spila á Spáni og Englandi og það væri gaman að prófa Ítalíu - kannski með Inter eða AC Milan," sagði Torres í viðtali við spænska tímaritið Don Balon.

"Það væri gaman að geta sagt það einn daginn að maður hafi náð að spila í þremur bestu deildum í heimi. Kannski að maður reyni fyrr sér í þýsku úrvalsdeildinni líka," sagði Torres.

Hann áréttaði samt að hann hefði engan hug á að fara frá Liverpool, þar sem hann hefur slegið rækilega í gegn síðan hann kom frá heittelskuðu liði sínu Atletico á Spáni.

"Ég er mjög ánægður hjá Liverpool og er samningsbundinn þar næstu fjögur árin. Félagið hefur reynst mér vel og mig langar að launa því það með því að vinna enska meistaratitilinn. Ég veit að menn hafa beðið lengi eftir því hérna," sagði Torres.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×