Enski boltinn

14 ára lið United yrði erfiður andstæðingur

Moyes og félagar fögnuðu góðum sigri í dag
Moyes og félagar fögnuðu góðum sigri í dag Nordic Photos/Getty Images

David Moyes knattspyrnustjóri Everton var í sjöunda himni eftir að hans menn tryggðu sér sæti í úrslitum ensku bikarkeppninnar með sigri á Manchester United í undanúrslitaleik í dag.

Leikurinn sjálfur var ekki mikið fyrir augað, en taugar þeirra bláklæddu héldu í vítakeppninni og Moyes viðurkenndi að hans menn hefðu æft vítin fyrir leikinn.

"Já, við æfðum reyndar vítaspyrnur fyrir leikinn, en það er svo sem erfitt að æfa svona lagað. Menn skora ef markvörðurinn fer í vitlaust horn, annars ekki. Ég átti í vandræðum með að finna fimm menn til að taka spyrnur en á endanum var það markvörðurinn sem kom okkur til bjargar," sagði Moyes ánægður í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Moyes var ánægður með að ná að vinna sigur á sterku liði United og vildi ekki hlusta á það að meistararnir hefðu mætt til leiks með hálfgert varalið.

"Þetta var erfiður leikur og það er alltaf erfitt að leika gegn United. Það væri erfitt að vinna United þó þeir mættu til leiks með U-14 ára lið sitt. Við hefðum átt að spila betur á köflum í þessum leik, en þetta var erfitt," sagði Moyes.

Það var víti

Hann sagði líka skoðun sína á meintum vítaspyrnudómi sem margir vildu meina að hefði átt að falla með Manchester United í leiknum þegar Phil Jagielka braut á Danny Welbeck.

"Ég sá ekki betur en að þeir hefðu átt að fá víti," sagði Moyes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×