Innlent

Bandaríkin segjast ekki munu gefa meira eftir

bandaríkjaforseti Barack Obama hefur gefið út að stefna Bandaríkjanna sé að árið 2020 hafi Bandaríkin dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 17 prósent miðað við árið 2005. Hér er hann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
bandaríkjaforseti Barack Obama hefur gefið út að stefna Bandaríkjanna sé að árið 2020 hafi Bandaríkin dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 17 prósent miðað við árið 2005. Hér er hann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkin áréttuðu enn í gær afstöðu sína í loftslagsmálum og að þau ætluðu ekki að ganga lengra en lýst hefur verið yfir í samdrætti útblásturs. Eiga í viðræðum við Kína. Skotin ganga á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

„Ég á ekki von á neinum breytingum á afstöðu Bandaríkjanna,“ sagði Todd Stern, yfirmaður bandarísku sendinefndarinnar hér í Kaupmannahöfn. Varla er þó við öðru að búast en yfirlýsing um slíkt geti aðeins komið frá Obama sjálfum.

Á blaðamannafundi í gær eyddi hann löngum tíma í að sýna fram á að tillögur Bandaríkjanna gengju jafnlangt, ef ekki lengra, en tillögur Evrópusambandsins og annarra ríkja. Um það er deilt.

Obama Bandaríkjaforseti lýsti því yfir fyrir skemmstu að Bandaríkin myndu draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 17 prósent árið 2020, miðað við það sem hann var árið 2005. Þetta hefur Evrópusambandið gagnrýnt, sem heldur sig við viðmiðunarárið 1990, nokkuð sem náðist samstaða um árið 1992.

Todd sagði Bandaríkin ekki vera á móti því að önnur ríki notuðu enn það viðmiðunarár, þó að raunin væri sú að flest lönd, önnur en Evrópusambandið, notuðu annað viðmiðunarár. Miklu máli skiptir við hvaða ár er miðað, samdrátturinn sem Bandaríkin hafa boðað er til dæmis ekki nema 4 prósent ef miðað er við árið 1990, langt frá þeim 30 prósentum sem Evrópusambandið hefur lagt til.

Todd Stern minnti á að afstaða Bandaríkjastjórar væri í samræmi við frumvarp sem lægi fyrir þinginu og því væri ólíklegt að út af henni yrði brugðið.

Mikið hefur verið pískrað hér í Bella Center um að Obama hafi lagt hönd á plóginn í samningaviðræðum við þróunarríkin á mánudag, en þá var upplýst að hann hefði hringt tvö símtöl tengd ráðstefnunni. Svo er ekki, forsetinn hringdi í starfsbræður sína í Eþíópíu og Bangladess, líklegast til að afla hugmyndum Bandaríkjanna stuðnings.

Yfirmaður bandarísku sendinefndarinnar sagðist hafa verið í miklum samskiptum við Kínverja undanfarna daga og átti von á fundum fram á nótt. Hann sagðist bjartsýnn á niðurstöður þeirra viðræðna, sem meðal annars snúast um alþjóðlega viðurkenninu á því hvernig ástandið er í raun í Kína í dag svo ljóst sé við hvað er miðað, en sagðist búast við erfiðum viðræðum.

Þá hafa Bandaríkjamenn ekki getað sætt sig við að Kína fái sérmeðferð sem þróunarland og njóti efnahagsstuðnings sem slíkt. Viðræður um það hafa staðið yfir og einnig um stöðu Indlands.

Þá fullyrti hann að hugmyndir Bandaríkjanna gengju lengra en Evrópusambandsins ef ýmsir aðrir mælikvarðar væru notaðir, svo sem að miða við höfðatölu.

Spurður hvort bandaríska stjórnin lægi undir þrýstingi frá kola- og olíuiðnaðinum, sagðist hann ekki vilja orða það svo. Lobbíismi væri partur af bandarísku samfélagi og ekkert athugavert við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×