Innlent

Ekkert fjármagnsflóð á leiðinni þrátt fyrir afnám hafta

Ingólfur Bender telur ólíklegt að afnám á innstreymi fjármagns hafi mikil áhrif á gengi krónunnar.
Ingólfur Bender telur ólíklegt að afnám á innstreymi fjármagns hafi mikil áhrif á gengi krónunnar.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt áætlun um afnám gjaldeyrishafta í áföngum. Í upphafi verður höftum af öllu innstreymi erlends gjaldeyris vegna nýrrar fjárfestingar aflétt.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir þetta jákvætt skref. „Það er óljóst hve margir aðilar munu bíða eftir því að komast inn í hagkerfi sem ekki er hægt að komast út úr."

Ingólfur er hæfilega bjartsýnn á að mikið fjármagn muni koma inn til landsins eftir að innstreymi fjármagns verður leyft.

„Það mun ekkert flóð af fjármagni streyma til landsins við þessa ráðstöfun." Hann segir þetta þó jákvætt skref enda geti höft ekki haldið til lengri tíma.

Ingólfur reiknar ekki með miklum áhrifum á gengi krónunnar og það kæmi honum á óvart ef svo yrði.

Óljóst sé hins vegar fyrir-fram hvaða áhrif afnám haftanna muni hafa, enda eigi eftir að greina nánar frá því með hvaða móti þau verða afnumin.

Samkvæmt tilkynningu frá Seðlabanka Íslands segir að skilyrði þess að heimilt verði að flytja fjármunina til landsins sé að fjárfestingin sé skráð hjá Seðlabanka Íslands.

Áætlað er að áhrif þessa fyrsta áfanga á gjaldeyrisforðann verði jákvæð eða lítil. Miðvikudaginn 5. ágúst mun Seðlabankinn kynna nánar einstaka áfanga áætlunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×