Innlent

Hafró fann lítið af loðnu

Þess virðist langt að bíða að sjómenn fái alvöru loðnuvertíð.
fréttablaðið/óskar p. friðriksson
Þess virðist langt að bíða að sjómenn fái alvöru loðnuvertíð. fréttablaðið/óskar p. friðriksson MYNDÓPF

Árlegri loðnumælingu Hafrannsóknastofnunar að haustlagi er lokið og niðurstöður gefa ekki tilefni til þess að leggja til loðnukvóta á komandi vetrarvertíð. Lítið mældist af fullorðinni loðnu sem og ungloðnu.

Ungloðna fannst á stóru svæði en lóðningarnar voru víðast gisnar og engar þéttar torfur sáust. Haustið 2008 fannst mikið af loðnuseiðum á þessum tíma og var vonast til að sá árgangur myndi skila sér sem eins árs fiskur í mælingunni nú. Sú varð þó ekki raunin og fjöldi eins árs ungloðnu mældist verulega undir því marki að hægt sé að mæla með upphafskvóta fyrir vertíðina 2010-2011.

Stórrar loðnu varð vart í litlu magni við og uppi á landgrunnskantinum frá Langanesi og vestur undir Kolbeinseyjarhrygg. Veiðistofninn, sem er tveggja og þriggja ára fiskur, mældist um 140 þúsund tonn. Aflaregla í loðnu gerir ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til að hrygna þannig að ekki er unnt að leggja til loðnukvóta fyrir komandi vetrarvertíð á grundvelli þessara mælinga.

Undanfarin ár hefur ekki tekist að mæla stærð veiðistofns loðnunnar fyrr en í janúar eða jafnvel fyrri hluta febrúar.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×