Innlent

Enginn bilbugur á Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að sitja áfram. Mynd/ kóp.
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að sitja áfram. Mynd/ kóp.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ætlar sér að sitja sem forsætisráðherra að minnsta kosti út kjörtímabilið, en sögusagnir hafa verið á kreiki um að hún ætlaði að segja af sér á ríkisráðsfundi á gamlársdag. Það fylgdi sögunni að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra myndi taka við af Jóhönnu.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar úr innsta hring í forystu Samfylkingarinnar hafa menn þar á bæ skemmt sér yfir söguburðinum og segja engan bilbug á Jóhönnu. Hún hafi beitt sér að fullu við gerð fjárlaganna og ætli sér að leiða ríkisstjórnina þar til umboði hennar lýkur við kosningar árið 2013.

Einn ráðherra sem fréttastofan ræddi við sagðist finna smjörþefinn af þessari smjörklípu leggja alla leið ofan úr Hádegismóum, þar sem ákveðinn smjörklípugerðarmaður sæti og dundaði sér við að reyna að sýna fram á að Jóhanna væri veikur leiðtogi. Staðreyndin væri hins vegar sú að einhugur ríkti í ríkisstjórninni sem stæði öll að baki forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×