Innlent

Ætlar ekki að verða formaður Framsóknarflokksins

Eiríkur Tómasson.
Eiríkur Tómasson.

,,Ég hef mikinn áhuga á þjóðmálum en ég er ekki á leiðinni í pólitík," sagði Eiríkur Tómasson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, aðspurður hvort hann hafi hug á að bjóða sig fram til formennsku í Framsóknarflokknum. Orðrómur hefur verið um hugsanlegt framboð Eiríks, meðal annars á fréttavefnum AMX í dag. ,,Ég er feginn að geta borið þennan orðróm til baka," sagði Eiríkur.

Eiríkur staðfesti í samtali við Vísi að að einstaklingar í Framsóknarflokknum hafi rætt við sig um framboð en hann hafi gert viðkomandi einstaklingum ljóst að hann væri ekki á leið í stjórnmál. Hann sé afar sáttur í Háskóla Íslands. Í frétt AMX er því haldið fram að þungavigtarmenn í flokknum hafi þrýst á aðra frambjóðendur um að draga framboð sín til baka.

Eiríkur var formaður Sambands ungra framsóknarmanna 1978 til 1980 og varaborgarfulltrúi frá 1978 til 1982. Hann var aðstoðarmaður ráðherranna Ólafs Jóhannessonar og Steingríms Hermannssonar á 8. áratug seinustu aldar. Eiríkur er sonur Tómas Árnasonar sem var ráðherra fyrir Framsóknarflokksins og síðar seðlabankastjóri.

30. flokksþing framsóknarmanna verður haldið helgina 16. - 18. janúar. Fimm hafa lýst yfir framboði til formanns.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×