Enski boltinn

Alan Shearer leitar ráða hjá reyndum körlum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer og Bobby Robson á sínum tíma þegar þeir voru báðir hjá Newcastle.
Alan Shearer og Bobby Robson á sínum tíma þegar þeir voru báðir hjá Newcastle. Mynd/GettyImages

Alan Shearer, nýráðinn stjóri Newcastle, ætlar að gera allt til þess að halda liðinu upp í ensku úrvalsdeildinni. Eitt af því að er leita ráða hjá góðum og reyndum mönnum sem hann kynntist vel á frábærum ferli sínum.

Alan Shearer ætlar að taka upp símann og hringja í menn eins Kevin Keegan, Kenny Daglish, Sir Bobby Robson, Terry Venables og Glenn Hoddle en allir eiga þeir sameiginlegt að hafa unnið með hann sem leikmann á sínum tíma.

„Ég ætla að tala við Kevin, ég ætla að tala við Kenny, ég ætla að heyra í Glenn Hoddle og ég ætla að tala við Terry. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að ná í alla þá hjálp sem ég get fengið," sagði Shearer auðmjúkur.

Shearer lítur á þetta sem skammtímaverkefni og sér sjálfan sig ekki í þessu starfi lengur en fram á vor. „Ég ætla að vera hérna í átta vikur og ekki dag lengur," sagði Shearer.

Newcastle spilar sinn fyrsta leik undir stjórn Alan Shearer á morgun þegar liðið tekur á móti Chelsea á St. James' Park. Newcastle er sem stendur í fallsæti tveimur stigum á eftir Blackburn sem er í síðasta örugga sætinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×