Erlent

Hundruð manna handtekin í Grikklandi

Óeirðir í Aþenu. Lögreglan hefur beitt táragasi á mótmælendur.fréttablaðið/AP
Óeirðir í Aþenu. Lögreglan hefur beitt táragasi á mótmælendur.fréttablaðið/AP

Nokkur þúsund ungmenni hafa safnast saman í miðborg Aþenu tvo daga í röð til að minnast óeirðanna fyrir ári, sem hófust eftir að unglingspiltur féll fyrir skoti úr byssu lögregluþjóns.

Sumir mótmælendurnir hafa kastað grjóti í lögregluna, sem hefur svarað með því að beita táragasi. Brotnar hafa verið rúður í bönkum og kveikt í ruslatunnum úti á götu.

Lögreglan segir að á sunnudaginn hafi sextán lögreglumenn og fimm mótmælendur særst í átökunum, sem stóðu langt fram á nótt. Hundruð manna hafa verið handteknir, bæði í Aþenu og í Þessaloniku, þar sem einnig brutust út óeirðir. Einnig hafa orðið átök mótmælenda og lögreglu í borgunum Patras og Ioannina.

Á sunnudaginn var ár liðið frá því að hinn fimmtán ára gamli Alexis Grigoropolous lét lífið. Réttarhöld yfir tveimur lögregluþjónum hefjast 20. janúar næstkomandi vegna láts drengsins. Annar þeirra er ákærður fyrir morð, hinn fyrir morðtilraun.

Tveggja vikna óeirðir brutust út í kjölfar þessa atviks. Þær óeirðir voru þær verstu sem orðið hafa í landinu áratugum saman.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×