Innlent

Framsókn kynnir stjórnarflokkum eigin tillögur

Forysta Framsóknarflokksins kynnti leiðtogum stjórnarflokkanna (LUM) nú síðdegis tillögur sínar í efnahagsmálum, sem þeir telja að hrynda þurfi í framkvæmd bæði fyrir og eftir kosningar. Framsóknarmenn höfðu fyrirhugað að kynna tillögurnar á fréttamannafundi í dag, en frestuðu þeim fundi til morguns vegna þess að þeir vildu fyrst kynna tillögur sínar fyrir stjórnarflokkunum. Tillögunum er bæði ætlað að styðja við aðgerðir ríkisstjórnarinnar og halda stjórnarflokkunum við efnið.

Í tilkynningu sem barst frá flokknum kom eftirfarandi fram að flokkurinn muni kynna áherslur sínar varðandi stjórnlagaþing og aðgerðir til þess að efla atvinnulífið. Auk þess sem Framsókn hyggst kynna tillögur um skuldsett heimili.

Í tilkynningu frá flokknum segir:

Við myndun stjórnarinnar gerði Framsóknarflokkurinn athugasemdir við að töluvert vantaði uppá útfærslu leiða til að ná umræddum markmiðum. Við lok viðræðna var þó tilkynnt að flokkurinn féllist á að veita stjórninni vörn í trausti þess að í framhaldinu yrðu kynntar trúverðugar leiðir til að koma til móts við skuldsett heimili og efla atvinnulíf. Auk þess upplýstu stjórnarflokkarnir að þeir mundu þiggja efnahagstillögur frá Framsókn þætti flokknum vanta uppá aðgerðir.

Framsóknarflokkurinn mun í kvöld [Sunnudaginn 22. febrúar] kynna forsvarsmönnum stjórnarflokkanna tillögur í efnahagsmálum í samræmi við ofangreint og auk þess að ræða aðferðir við að koma á stjórnlagaþingi sem allra fyrst. Í framhaldi af því verða tillögurnar kynntar fyrir forsvarsmönnum annarra flokka á þingi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×