Erlent

Blóðbað í Pamplona

Óli Tynes skrifar

Nautahlaupið í Pamplóna hefur verið óvenju blóðugt í ár. Þessi vikulanga hátíð á sér meira en hundrað ára sögu.

Hún hefur kostað bæði líf og örkuml en enginn hafði þó dáið frá árinu 1995 fyrr en síðastliðinn föstudag þegar tuttugu og sjö ára gamall Spánverji var hreinlega rekinn í gegn.

Í dag urðu fjórir fyrir hornum nautanna og tveir þeirra eru alvarlega slasaðir. Sex til viðbótar slösuðust af öðrum orsökum.

Meðal annars voru einhverjir troðnir undir þegar þeir misstu fótanna þar sem þeir hlupu á undan dýrunum.

Nautin fara vel yfir hálft tonn og klaufir þeirra eru kvassar. Það er því fremur óþægilegt að láta þau troða á sér.

Blessuð nautin komast ekki lifandi frá þessu. Þau eru rekin inn í nautahringinn og þar taka nautabanar við þeim um eftirmiðdaginn og slátra þeim í blóðugum bardaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×